Föstudagur 25. október, 2024
6.9 C
Reykjavik

Litadýrð í veislunni

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Þeir sem hafa lagt leið sína til Parísar hafa eflaust tekið eftir því að það þarf ekki að labba lengi um miðborgina til að finna fallegt bakarí sem selur franskar makrónur. Bakaríið Laduré er þar fremst í flokki og hefur séð Parísarbúum fyrir makrónum síðan 1862. Í Frakklandi eru kampavín og makrónur ómissandi við öll tækifæri sem gefast til að halda veislu. Litadýrðin er ómótstæðileg og bragðið … Mmmm … Hvað svo á betur við á Hinsegin dögum en makrónur í öllum regnbogans litum.

 

Franskar makrónur

15 tilbúnar kökur

2 eggjahvítur, helst dagsgamlar
70 g möndlur
130 g flórsykur
2 msk. sykur
matarlitur eftir smekk

Skiljið eggjarauður og eggjahvítur daginn áður og geymið í kæli. Hitið ofninn í 150°C. Takið eggjahvítur tímanlega úr kæli því þá næst bestur árangur og kökurnar lyfta sér frekar ef þær eru við stofuhita í byrjun.

Malið möndlur í matvinnsluvél, bætið flórsykri út í og malið allt mjög vel saman. Sigtið möndlumjölið á smjörpappírsklædda ofnplötu gegnum frekar gróft sigti, malið það sem eftir verður í sigtinu aftur til að fá það fínt og sigtið aftur á plötuna. Setjið plötuna í ofninn og bakið í 8 mín., látið kólna aðeins.

Þeytið eggjahvítur þar til þær eru aðeins farnar að stífna. Bætið sykri út í, fyrst annarri skeiðinni og svo hinni, og hrærið hvíturnar áfram í 1-2 mín., bætið matarlit út í eftir smekk. Blandið möndlumjölinu saman við með sleikju, ef liturinn er ekki nógu skýr er hægt að bæta í eftir á.

- Auglýsing -

Setjið bökunarpappír með glanshliðina upp eða sílíkonmottur á ofnplötur. Setjið deigið í sprautupoka með sléttri túðu og sprautið út kringlóttar kökur á stærð við tíkall. Látið kökurnar bíða í klukkutíma til að þær fái á sig harða skel.

Hitið ofninn í 150°C. Bakið kökurnar í 12-14 mín. Látið þær bíða aðeins og takið þær síðan varlega af pappírnum með hníf eða spaða. Passið að baka kökurnar það lengi að botn sé farin að myndast undir þeim. Þið getið kíkt undir pappírinn.

Mynd/Kristinn Magnússon

Sítrónumakrónur

1 uppskrift franskar makrónur
smávegis af gulum matarlit
½ uppskrift sítrónumauk (lemon curd, sjá hér að neðan)

- Auglýsing -

Bakið makrónur samkvæmt grunnuppskrift og leggið saman með sítrónumauki á milli.

Sítrónumauk (Lemon-curd)
magn í 2-3 krukkur
Þetta frískandi sítrónumauk má nota ofan á ostakökur eða marenstertur, á milli botna í rjómatertur, setja góða teskeið inn í múffudeig og baka með, nota ofan á pönnukökur og margt fleira.
2 sítrónur
3 egg
200 g sykur
80 g smjör
Þvoið og þerrið sítrónur. Rífið ysta lagið af sítrónuberkinum með rifjárni og setjið í pott ásamt safanum úr sítrónunum. Setjið egg, sykur og smjör í pottinn og sjóðið saman þar til þykknar. Hellið í krukkur. Geymist í viku í kæliskáp.

Karamellumakrónur

1 uppskrift franskar makrónur
gulur matarlitur
2 dl dulce de leche-karamella í krukku

Bakið makrónur samkvæmt grunnuppskrift og leggið saman með karamellu á milli.

Fjólumakrónur

1 uppskrift franskar makrónur
fjólublár matarlitur

Bakið makrónur samkvæmt grunnuppskrift og leggið saman með hvítu súkkulaðikremi á milli.

Hvítt súkkulaðikrem
100 g hvítt súkkulaði
2 msk. rjómi

Bræðið súkkulaði og rjóma varlega saman yfir vatnsbaði og smyrjið makrónurnar.

Súkkulaðimakrónur

1 uppskrift franskar makrónur
2-3 msk. kakó

Bakið makrónur samkvæmt grunnuppskrift, bætið kakói út í uppskriftina um leið og möndlumjöli. Leggið makrónurnar saman með sítrónumauki á milli.

Súkkulaðikrem
100 g súkkulaði
2 msk. rjómi

Bræðið súkkulaði og rjóma varlega saman yfir vatnsbaði og smyrjið á makrónurnar.

Ljósgrænar makrónur

Í þessar makrónur má líka nota smjörkrem bragðbætt með piparmintulíkjör.

1 uppskrift franskar makrónur
smávegis af gulum matarlit
grænn matarlitur
2 dl hindberjasulta

Bakið makrónur samkvæmt grunnuppskrift og leggið saman með hindberjasultu á milli.

Pistasíumakrónur

1 uppskrift franskar makrónur
grænn matarlitur

Bakið makrónur samkvæmt grunnuppskrift og leggið saman með pistasíukremi á milli.

Pistasíukrem
100 g pistasíur, malaðar
100 g marsípan
2-3 msk. kalt vatn

Hrærið allt saman og smyrjið á makrónurnar.

Appelsínumakrónur

1 uppskrift franskar makrónur
appelsínugulur matarlitur eða rauður og gulur blandað saman

Bakið makrónur samkvæmt grunnuppskrift og leggið saman með appelsínusmjörkremi á milli.

Appelsínusmjörkrem
1 eggjahvíta
150 g flórsykur
1-2 tsk. rifinn appelsínubörkur
1-2 msk. appelsínusafi

Hrærið allt saman og smyrjið á makrónurnar.

Makrónur. Mynd/Kristinn Magnússon

Sultumakrónur

1 uppskrift franskar makrónur
rauður matarlitur
jarðarberjasulta til að setja á milli

Bakið makrónur samkvæmt grunnuppskrift og leggið saman með jarðarberjasultu á milli.

Engifermakrónur

1 uppskrift franskar makrónur
smávegis af appelsínugulum matarlit

Bakið makrónur samkvæmt grunnuppskrift og leggið saman með smjörkremi á milli.

Smjörkrem með engiferrót
1 eggjahvíta
150 g flórsykur
2 tsk. síróp af sultaðri engiferrót
1 msk. sultuð engiferrót, fínt söxuð

Blandið öllu saman og smyrjið á makrónurnar.

Rósamakrónur

1 uppskrift franskar makrónur
smávegis af rauðum matarlit eða bleikum ef þið fáið hann

Bakið makrónur samkvæmt grunnuppskrift og leggið saman með bleikum glassúr á milli.

Bleikur glassúr
1 eggjahvíta
150 g flórsykur
smávegis af rauðum eða bleikum matarlit
nokkrir dropar bragðefni (fæst t.d. með brjóstsykursbragði hjá mömmur.is)

Blandið öllu saman og smyrjið á makrónurnar.

Umsjón/Sigríður Björk Bragadóttir
Stílisti/Ólöf Jakobína Ernudóttir

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -