Þessa súpu má gjarnan gera daginn áður og hita upp. Tortillurnar og það sem fer ofan á er best að gera samdægurs.
Mexíkósk tortilla-súpa með kjúklingi
fyrir 4-6
1 rauðlaukur, saxaður
3 hvítlauksgeirar, saxaðir
2 msk. olía
1 rauð paprika, söxuð
½ gul paprika, söxuð
500-600 g kjúklingakjöt, skorið í munnbita, gott er að
nota úrbeinuð læri
1 msk. paprikuduft
½ tsk. reykt paprikuduft, má sleppa
1 tsk. kummin
1 tsk. óreganó
½ tsk. chili-flögur
1 dós saxaðir tómatar
1 l vatn + 2 grænmetis- eða kjúklingateningar
1-2 dl svartbaunir úr dós (fást m.a. í heilsuverslunum)
Steikið lauk og hvítlauk upp úr olíu í rúmgóðum potti við meðalhita þar til laukurinn fer að verða glær. Bætið rauðri og gulri papriku út í og steikið aðeins áfram.
Bætið kjúklingakjöti í pottinn og steikið þar til það fer að brúnast aðeins. Setjið paprikukrydd, kummin, óreganó og chili-flögur út í og steikið með smástund. Bætið tómötum út í ásamt safanum úr dósinni, vatni og grænmetisteningum og sjóðið saman í 25 mín.
Sigtið safann frá baununum og sjóðið þær með síðustu 10 mínúturnar. Setjið súpuna í súpuskálar og setjið tortilla-kökublönduna ofan á. Sáldrið fetaosti yfir í lokin.
Ofan á
3-4 tortilla-kökur, við notuðum tortillaheilhveitikökur
3 msk. olía
1-2 lárperur, skrældar og skornar smátt niður
hnefafylli kóríander, saxaður
100 g fetaostur, mulinn niður
Skerið tortilla-kökur í strimla og steikið þá upp úr olíu á heitri pönnu, þetta þarf e.t.v. að gera í tvennu lagi. Leggið strimlana á eldhúsbréf svo mesta olían drjúpi af. Brjótið kökurnar aðeins og blandið lárperum og kóríander saman við.
Umsjón / Sigríður Björk Bragadóttir
Stílisti / Ólöf Jakobína Ernudóttir
Mynd / Karl Petersson