Hér kemur uppskrift að klassískum kanilsnúðum. Uppskriftin gerir um 12 stk. stóra snúða eða 24 stk. litla. Best er að bera kanilsnúðana fram heita eða volga og með glasi af ískaldri mjólk.
500 g hveiti
2 msk. sykur
1 msk. þurrger
1 tsk. salt
2 tsk. kardimommuduft
90 g smjör, skorið í bita
300 ml fingurvolg mjólk
Fylling:
70 g mjúkt smjör
1 dl hrásykur
2 tsk. kanill
1 egg, til þess að pensla með
u.þ.b. 2 msk. perlusykur, til skrauts (má sleppa)
Blandið öllu þurrefni saman í skál. Myljið smjörið vel saman við með fingrunum. Gerið holu í miðjuna og hellið mjólkinni út í. Hrærið deigið saman með sleif.
Setjið deigið á hveitstráð borð og hnoðið saman þar til deigið er slétt og fellt, gott er að hnoða meira en minna, gjarnan í allt að 10 mín.
Látið deigið lyfta sér á hlýjum stað undir plastfilmu eða viskastykki í a.m.k. 2 klst. Deigið á nokkurn veginn að tvöfaldast að umfangi.
Hitið ofn í 220°C. Fletjið deigið út á hveitistráðu borði þannig að það sé 1-2 cm þykkt. Það fer eftir því hversu stórir snúðarnir eiga að vera hversu þykkt eða þunnt deigið er flatt. Hér var það haft nokkuð þykkt og gerðir færri en stærri snúðar.
Penslið öllu mjúka smjörinu á deigið. Blandið saman hrásykri og kanil og stráið yfir.
Skiptið deiginu í tvennt eða þrennt og skerið í lengjur. Hnýtið hverja lengju varlega í hnút og raðið á bökunarpappírsklædda ofnplötu. Eins má líka rúlla deiginu upp og skera í sneiðar. Látið snúðana lyfta sér í 20-30 mín.
Penslið þá með egginu og stráið gjarnan perlusykri yfir. Bakið í 10-12 mín. en athugið að bökunartíminn fer svolítið eftir stærð snúðanna, gætið þess bara að baka þá ekki of lengi, þeir eru fljótir að verða of dökkir.
Best er að bera kanilsnúðana fram heita eða volga og með glasi af ískaldri mjólk.
Umsjón / Kristín Dröfn Einarsdóttir
Myndir / Aldís Pálsdóttir
Stílisti / Ólöf Jakobína Ernudóttir