Egg eru ofurfæða
Egg eru fyrirtaks uppspretta B-vítamína sem eru nauðsynleg fyrir margs konar starfsemi líkamans. Egg búa einnig yfir góðum skammti af A-vítamíni sem er mikilvægt fyrir vöxt og þroska. E-vítamínið sem finnst í eggjum er einnig vörn gegn hjartasjúkdómum og sumum tegundum krabbameins. Í eggjum er einnig D-vítamín sem hjálpar til við upptöku steinefna og styrkir bein. Þá eru egg rík af joði sem þarf til myndunar skjaldkirtilshormóna og fosfórs sem er nauðsynlegt fyrir bein og tennur.

Holl og góð
Lárpera er einstaklega holl og er notuð víða um heim sem meðlæti í stað þess að nota olíu eða smjör. Lárpera inniheldur mikið kalíummagn, eða um þrisvar sinnum meira en finnst í bönunum. Hún er einnig rík af B-, E- og K-vítamínum og inniheldur svo gott sem engan sykur. Lárpera er líka trefjarík. Rannsóknir hafa bent til þess að neysla á lárperu lækki blóðsykur og lækki einnig magn kólesteróls í blóði.

Epli og appelsínur
Ávextir í nesti í skólann eða vinnuna eru góður kostur og hluti af því að borða 5 skammta af ávöxtum og grænmeti á dag. Það hjálpar okkur að fá fjölbreytt úrval af vítamínum, steinefnum og öðrum næringarefnum beint úr fæðunni. Einn ávaxtaskammtur er einfaldlega 1 heill ávöxtur, eins og til dæmis epli, appelsína eða banani hins vegar þarf 2 mandarínur og 2 kíví til að búa til einn skammt, og um 120 g af vínberjum og melónum svo fleiri dæmi séu tekin. 120 g af vínberjum er um 17-24 stk af vínberjum háð stærð þeirra.
Heimild: Doktor.is
