Þriðjudagur 24. desember, 2024
0.8 C
Reykjavik

Öllu tjaldað til

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Fátt er skemmtilegra en að fara í útilegu í góðu veðri og njóta alls þess sem íslenska sveitin okkar hefur upp á að bjóða. Margir eiga dýrmætar bernskuminningar frá slíkum ævintýraferðum en erfitt getur reynst að velja úr þeim mýmörgu tjaldstæðum sem finna má á landinu. Hér eru tíu góð tjaldsvæði sem við höldum sérstaklega upp á og nokkur góð ráð sem vert er að hafa í huga áður en lagt er af stað.

Texti / Folda Guðlaugsdóttir og Nanna Teitsdóttir

Básar í Þórsmörk
Þórsmörk er ein helsta náttúruperla Íslands og tjaldstæðið í Básum fallegt og skjólsælt. Gönguleiðirnar um svæðið eru á færi flestra og góð aðstaða fyrir tjaldgesti.

Þakgil
Í Þakgili er stórbrotið landslag en tjaldstæðið er staðsett við græn fjöll þar sem hægt er að greina ýmsar kynjamyndir. Aðstaðan er öll mjög skemmtileg. Fjallageitur geta farið í skemmtilegar útsýnisgöngur en aðrir geta farið í göngu um sléttlendið í kring. Tjaldstæðið er um 20 km frá Vík í Mýrdal.

Skaftafell
Í Skaftafelli er mjög góð aðstaða, þar er einnig gífurleg náttúrufegurð og Öræfajökull setur mikinn svip á staðinn. Hægt er að velja um ótal gönguleiðir fyrir byrjendur og lengra komna. Á góðviðrisdögum er hægt að busla í vatninu við Lambhaga og enginn verður svikinn af gönguferð að Svartafossi.

Atlavík
Atlavík við Lagarfljót er í Hallormsstaðaskógi. Þar er einstök náttúrufegurð, skemmtilegt fuglalíf og auðvelt að fara í náttúrugöngur um skóginn eða leika sér í víkinni við að fleyta kerlingar.

Borgarfjörður eystri
Tjaldstæðið er í bænum Bakkagerði við Álfaborg. Svæðið er þekkt fyrir sögur af álfum og huldufólki en Álfaborg er sögð vera heimili álfadrottingar Íslands, þarna leynast því ýmis ævintýri fyrir litla ferðalanga. Borgarfjörður eystri er einstaklega fallegur og skartar litskrúðugum fjöllum. Sérlega gaman er að fara út að bryggjunni til að fylgjast með lundanum.

- Auglýsing -

Ásbyrgi
Í Ásbyrgi er stórt tjaldsvæði með góðri aðstöðu á fallegum stað á norðursvæði Vatnajökulsþjóðgarðs. Stutt er í önnur náttúrusvæði, eins og Dettifoss, Hljóðakletta og Hólmatungur. Einnig er hægt að fara í stuttar fræðslugöngur um þjóðgarðinn með landverði á sumrin endurgjaldslaust.

Hólar í Hjaltadal
Hólar er merkur menningar- og sögustaður og tjaldsvæðið er staðsett í Hólaskógi þar sem hægt er að tjalda í skjólsælum rjóðrum. Ekki er langt að keyra í sundlaugina á Hofsósi sem ætti að vera viðkomustaður allra sem heimsækja þetta landsvæði, enda með fallegri laugum landsins.

Rauðasandur
Tjaldsvæðið á Melanesi er á afgirtu túni sem finna má við Rauðasand. Rauðasandur er 10 km löng strandlengja sem er tilvalin fyrir göngutúra og sniðugt að taka með sér kíki til að finna selina sem halda til í nágrenninu. Í háfjöru leynast ýmsir litlir fjársjóðir fyrir yngri ferðalanga. Þarna er líka hægt að ganga um sögustaðinn Sjöundá sem Gunnar Gunnarsson skrifaði svo eftirminnilega um í bókinni Svartfugli.

- Auglýsing -

Tálknafjörður
Tálknafjörður er sjarmerandi bær á Vestfjörðum þar sem finna má frábært tjaldstæði. Ýmsa afþreyingu má finna í nágrenninu, skemmtilegar gönguleiðir, góð sundlaug er í bænum og einnig er hægt að heimsækja Pollinn, heitu pottana í landi Litla-Laugarlands, skammt frá bænum.

Húsafell
Ástæða er fyrir því að oft mælist hiti einna mestur á sumrin í Húsafelli enda góð veðursæld þrátt fyrir nálægðina við jökulinn. Fjölbreytt afþreying er á svæðinu og hægt að fara í sund, strandblak, golf og börnin geta leikið sér í leiktækjunum. Yfir hásumarið er tendraður varðeldur á laugardagskvöldum.

Ekki verða kalt
Hafið í huga að ef dagarnir eru heitir geta næturnar verið kaldar. Passið að hafa með föðurland og hlýja sokka til að sofa í og gott getur verið að hafa buff utan um hálsinn eða á eyrunum. Einangrun skiptir miklu máli, hafið dýnur í tjaldinu, góða svefnpoka, dúnúlpur og gott er að hafa aukaullarteppi meðferðis, það er ekkert gaman að verða kalt um miðja nótt þegar sofið er í tjaldi. Einangrun getur skemmst í svefnpokum, þannig að ekki fá lánaðan svefnpokann sem pabbi ykkar fékk í fermingargjöf án þess að búast við því að verða kalt.

Eldað í náttúrunni
Einnota ferðagrill eru ekki góður kostur, ekki aðeins eru þau óumhverfisvæn og valda víða ljótum brunablettum á tjaldstæðum, heldur er nánast ómögulegt að elda gæðamat á slíku grilli. Hugið frekar að öðrum eldunarfærum, annaðhvort prímus eða ferðagrilli ásamt álpappír og eldspýtum. Það eru mörg tjaldstæði sem bjóða upp á góða eldunaraðstöðu en það býður upp á meira frelsi og næði frá öðrum gestum að vera með sína eigin eldunaraðstöðu, þá er einnig hægt að tjalda næstum hvar sem er. Munið líka að fara varlega með eldfæri úti í náttúrunni í þeirri þurrkatíð sem hefur verið á landinu undanfarið.

Ekki fórna góðum kaffibolla þó svo að haldið sé í útilegu. Takið með espressókönnu og malað gæðakaffi. Einnig er orðið vinsælt að ferðast með Aeropress, enda létt og fyrirferðalítil græja sem lagar gott kaffi.
Sniðugt er að taka þau krydd sem mest eru notuð á heimilinu með í ferðina. Gott er að kaupa litlar krukkur fyrir kryddin og merkja skilmerkilega. Krukkurnar má svo geyma í plastboxi svo þau séu öll á sama stað.

Leirtau er gott að hafa úr plasti eða bambus, bæði er það léttara og brotnar ekki í ferðalaginu. Takið með eitt skurðbretti og góðan hníf ásamt vasahníf.

Gott teppi með vatnsheldum botni tekur ekki mikið pláss í skottinu og getur gert nestisstoppin mun þægilegri og auðveldara að njóta þegar sitjandinn helst þurr.

Hafið meðferðis vaskafat, uppþvottasápu, uppþvottabursta og viskastykki. Þannig er auðveldlega hægt að raða óhreina leirtauinu í og vaska upp annaðhvort í aðstöðu hjá tjaldstæðinu eða færa sig yfir í næsta læk.

Skipulag er af hinu góða
Takið með ykkur eyrnatappa, ekki láta kvöldvökuna í næsta tjaldi eyðileggja góðan nætursvefn.

Sniðugt er að fjárfesta í glærum plastkössum sem raðast auðveldlega í skottið á bílnum. Hafið einn fyrir eldhúsdót og annan fyrir þurrvörur, þannig sést auðveldlega hvar allt er og minnkar umstang. Síðan er hægt að hafa einn aukalega fyrir hlý föt og teppi ef nóg pláss er í skottinu.

Passið að hafa með ruslapoka sem hægt er þá að losa sig við í næsta gám.

Í útivistarbúðum er hægt er að fá allt leirtau sem þarf fyrir útileguna. Meðal annars gaffal, skeið og hníf í einu setti og vínglös sem hægt er að brjóta saman. Það kemur sér vel fyrir sælkeraútilegur.
Fyllið stóran brúsa af vatni fyrir ferðalagið og hafið einnig meðferðis kælibox.

Rennilásapokar í öllum stærðum koma sér vel fyrir ýmislegt, eins og til dæmis undir hnífapör. Tilvalið er að hafa eldspýtur og vasahníf saman í einum og þeir eru líka frábærir fyrir snyrtidót. Í raun koma þeir sér vel fyrir allt, dótið blotnar ekki.

Sjúkrakassi er nauðsynlegur og ætti alltaf að vera meðferðis í útileguna enda getur allt gerst. Hægt er að kaupa tilbúna sjúkrakassa sem búið er að fylla á í apótekum. Hælsærisplástar, brunakrem og sólarvörn ættu líka að fylgja með í ferðalagið.

Smáatriði skipta máli
Þvottaklemmur koma sér vel þegar hengja þarf viskastykki eða blaut föt til þerris. Gott er að nota böndin á tjaldinu til að hengja upp, einnig er sniðugt að fjárfesta í viskastykki og þunnu handklæði sem þornar fljótt.

Ef bílaplássið býður upp á er gott að hafa ferðaborð og stóla með þar sem bekkjapláss er ekki alltaf nóg fyrir alla á tjaldstæðum.

Höfuðljós koma sér alltaf vel, bæði þegar rata þarf á baðherbergi um miðja nótt eða lesa inni í tjaldi. Hægt er að dreifa birtunni með því að spenna höfuðljósið á stóran brúsa af vatni og láta ljósið skína inn í brúsann.

 

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -