Þriðjudagur 19. nóvember, 2024
-3.4 C
Reykjavik

Ostar í veisluna

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Ostabakkar eru löngu orðnir sígildir í veisluna og geta þeir verið mikil prýði á borðinu. Úrval osta, bæði innlendra og erlendra, fer vaxandi á Íslandi og því verður auðveldara fyrir fólk að fara út í búð og velja skemmtilega og ólíka osta til að bera fram í boðinu.

 

Á mínu heimili tíðkast að búa til veglegan ostabakka með ýmsu meðlæti eftir morgunmatinn á aðfangadag. Bakkinn er síðan settur á borðstofuborðið og fær að sitja þar fyrir heimilismenn og gesti og gangandi til að narta í. Þannig er alltaf eitthvert góðgæti fyrir þá sem koma óvænt í heimsókn og við getum verið róleg í undirbúningi jólanna.

Það er tími og staður fyrir bragðbætta osta en ég hvet ykkur til að reyna að velja hreina osta þar sem bragð þeirra fær að njóta sín. Auðvitað eru engar reglur varðandi valið en gott er að miða við að vera með a.m.k. einn ost í hverjum flokki af eftirfarandi:

Þroskaður ostur – t.d. gouda, port salut eða cheddar
Mjúkur ostur – t.d. geitaostur, brie eða camembert
Harður ostur – t.d. manchego, prima donna eða parmesan
Gráðostur – gorgonzola, stilton eða roquefort

Þegar búið er að velja ostana á bakkann þá er gott að hugsa um hvað parast vel með þeim. Hunang er frábært með gráðosti og geitaosti og fíkjusulta passar með langflestum ostum. Pæklað grænmeti er gott til að hreinsa bragðlaukana á milli þess að naslað er á ólíkum ostum. Ferskir og þurrkaðir ávextir, ásamt ólífum og hnetum, er fallegt að setja á bakkann og þetta hráefni gerir alla osta betri. Einnig er gott að vera með dökkt súkkulaði, sterkt sinnep og ólífuolíu á bakkanum.

Vínber eru löngu orðin klassísk á ostabakkann en gaman er að breyta frá þeirri venju og reyna að velja aðra ferska ávexti, t.d. mandarínur, fíkjur og sneiddar perur. Best er að velja þá ávexti í búðinni sem líta vel út og eru ferskir.

- Auglýsing -

Þegar raðað er á ostabakkann er gott að fylgja eftirfarandi röð: raðið ostinum á bakkann fyrst, setjið síðan skálar á bakkann með ólífum, pækluðu grænmeti og hunangi, næst er kjötálegginu raðað á bakkann, látið síðan ferska og þurrkaða ávexti og dreifið að lokum hnetum í bilin sem eftir eru.

Góð ráð

Leggið hníf fyrir hvern ost svo ostarnir smitist ekki þegar þeir eru skornir niður.

- Auglýsing -

Takið ostinn úr ísskápnum a.m.k. einum klukkutíma áður en hann er borinn fram. Bragð ostanna nær ekki að njóta sín ef þeir eru kaldir, ostar eru bestir við stofuhita.

Texti / Nanna Teitsdóttir
Mynd / Aldís Pálsdóttir

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -