Þessi skemmtilega útgáfa af rúllutertu vakti mikla lukku í tilraunaeldhúsi Gestgjafans enda algert hnossgæti fyrir þá sem hafa unun að marsípani og núggati. Einföld og góð.
Möndlurúlla með núggati
fyrir 10
2 eggjahvítur
150 g marsípan, rifið gróft á rifjárni (ren rá marsipan)
3 egg
50 g smjör, mjúkt
1 dl rjómi
50 g hveiti
Hitið ofninn í 175°C. Þeytið eggjahvítur í tandurhreinni skál þar til þær eru stífar, setjið í skál til hliðar. Setjið marsípan (óþarfi að þvo skálina), egg, smjör og rjóma í skál og hrærið vel saman. Blandið hveiti út í og síðast stífþeyttum eggjahvítum. Setjið bökunarpappír í ofnskúffu, 25 x 40 cm á stærð.
Hellið deiginu í skúffuna og bakið kökuna í miðjum ofni í 20 mín. Hvolfið strax á örk af bökunarpappír og rúllið upp í rúllu, þetta er gert svo kakan brotni ekki þegar henni er rúllað saman með kreminu. Látið kólna. Lagið kremið og látið það bíða í kæli í klukkutíma. Rúllið kökunni út og smyrjið kreminu á botninn og rúllið síðan kökunni upp.
Þekið kökuna með súkkulaði og skreytið eftir smekk.
Krem
1 ½ dl rjómi
200 g mjúkt núggat
50 g möndlur, saxaðar
Hitið rjóma og núggat saman og hrærið í þar til það er vel samlagað. Ristið möndlur og bætið út í. Látið kólna þar til blandan þykknar aðeins.
Ofan á
100 g súkkulaði, brætt í vatnsbaði
skraut eftir smekk
Umsjón / Sigríður Björk Bragadóttir
Mynd / Rakel Ósk Sigurðardóttir