Chiffon-kaka er mjög létt í sér og loftkennd. Uppistaðan er olía, egg, sykur, hveiti og lyftiefni og bragðefni. Þar sem ekki er notað smjör í svona kökur er nauðsynlegt að nota mikið af eggjum. Í Chiffon-kökum og svokölluðum englakökum sem einnig hafa loftkennda áferð eru eggjahvíturnar alltaf stífþeyttar og settar rólega saman við með sleif.
CHIFFON-KAKA
8-12 sneiðar
60 g dökkt kakó
2 msk. skyndikaffiduft
150 ml heitt vatn
200 g hveiti
300 g sykur
1 ½ tsk. lyftiduft
1 tsk. salt
120 ml olía
7 egg, skilin
2 tsk. vanilludropar
¼ tsk. cream of tartar
50 g pistasíuhnetur
6-7 döðlur, saxaðar
Hitið ofninn í 160°C. Blandið saman í skál, kakódufti, skyndikaffidufti og sjóðandi vatni, látið kólna í 20 mín. Setjið hveiti, helminginn af sykrinum, lyftiduft og salt saman í hrærivélarskál.
Bætið olíu, eggjarauðum og vanillu saman við. Hellið kakóblöndunni út í og hrærið. Þeytið eggjahvítur og cream of tartar og bætið afganginum af sykrinum saman við og þeytiðþar til blandan verður stíf, blandið saman við deigið í skömmtum, notið sleif eða sleikju. Setjið deigið í 25 cm stórt hringlaga smurt form.
Bakið í 60-65 mín. eða þar til prjónn sem stungið hefur verið í kökuna kemur hreinn út. Látið kökuna kólna áður en hún er tekin úr forminu. Smyrjið súkkulaðikreminu yfir kökuna og skreytið með söxuðum pistasíum og döðlum. Berið kökuna fram með rjóma.
Súkkulaðikrem
200 g suðusúkkulaði
2 msk. kakó
1 dl sjóðandi vatn
100 g smjör, við stofuhita
Bræðið súkkulaðið yfir vatnsbaði, setjið allt í skál og þeytið saman þar til kremið verður mjúkt og glansandi, dreifið yfir kökuna.
Umsjón / Bergþóra Jónsdóttir og Nanna Teitsdóttir
Stílisti / Hanna Ingibjörg Arnarsdóttir
Myndir / Heiðdís Guðbjörg Gunnarsdóttir