Þriðjudagur 24. desember, 2024
0.8 C
Reykjavik

Segir meðalveginn bestan: „Allar öfgar geta verið vafasamar“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Linda Hilmarsdóttir hefur rekið heilsuræktarstöðina Hress í Hafnarfirði ásamt eiginmanni sínum um árabil og þar vinnur öll fjölskyldan. Hún segir ánægjulegustu stundirnar þeirra vera við matarborðið og að fiskur og pastaréttir séu í uppáhaldi.

 

Rétturinn sem Linda útbjó fyrir okkur er fljótlegur og hún notar hann stundum þegar hún er með dögurð eða sem forrétt. Linda tekur flatkökur upp á annað plan og finnst að fólk ætti að nota þær meira spari og setja eitthvað gott á þær eins og hún gerir hér. Linda borðar allan mat en leggur áherslu á ferskleikann.

„Ég legg mikið upp úr því að borða morgunmat og salat verður oftast fyrir valinu í hádeginu eða afgangar frá kvöldinu áður. Ég elda nánast alltaf kvöldmat og reyni að sýna kjark og þor með því að vinda mér í alls konar tilraunir með nýja rétti. Stelpurnar mínar æfa íþróttir og koma svangar heim og því nauðsynlegt að elda góðan mat á kvöldin. Ég legg áherslu á nýtni og gott hráefni og vil fara vel með það sem keypt er inn fyrir heimilið. Ég er farin að leggja meira upp úr því að nýta afganga en áður,“ segir Linda.

Næring nauðsynleg fyrir átökin

Hún segir meðalveginn alltaf bestan og að öfgar geti verið varasamar. Sem dæmi notar hún kókosolíu mest sem rakagefandi smyrsl en minna í matargerð en notar hinsvegar ólífuolíu meira. Chia-fræ notar Linda í hina og þessa rétti og segist hafa trú á að þau séu góð fyrir okkur.

„Við verðum að nærast vel fyrir átökin í ræktinni. Ég fylgist vel með öllu varðandi mataræði og slíkt en tel að meðalvegurinn sé alltaf bestur. Borða fjölbreyttan mat, sem minnst unna vöru og elda frá grunni. Allar öfgar geta verið vafasamar. Það þarf eðalbensín í kroppinn ef vel á að ganga. Hreyfing er, að mínu mati, alltaf dýrmæt ein og sér upp á hreyfigetu, heilsu og andlegt ástand að gera.

„Við verðum að nærast vel fyrir átökin í ræktinni.“

- Auglýsing -

Mataræðið fylgir fast á eftir með öllum sínum fjölbreytileika. Ég reyni að virða allar leiðir sem fólk vill fara með mataræði sitt. Matarkúrar teljast oft ekki af hinu góða, þeir henta kannski sumum en þeir eru ekki fyrir mig. Ég vil borða og njóta en hreyfi mig þeim mun meira á móti. Bestu meðmælin varðandi árangur í ræktinni er heilbrigður verkjalaus líkami. Það verða allir að hreyfa sig, ungir sem aldnir. Enda fyrirbyggjandi fyrir flesta sjúkdóma. Hollt og gott mataræði skilar fólki síðan að markmiðum sínum,“ segir Linda. „Sérstaklega ef fólk vill grennast og byggja upp góðan vöðvamassa.“

Mynd / Hákon Davíð Björnsson

Flatkaka í hæstu hæðum

dugar fyrir 2 flatkökur

- Auglýsing -

„Fyrir þá sem eru vegan hentar þessi réttur vel, en þá mæli ég með vegan-smjöri eða smjörlíki til steikja upp úr og smávegis salti. Vegan-rjómaosturinn frá Oatly er góður til að steikja sveppina upp úr. Hægt er að fá vegan-flatkökur svo allir ættu að ganga glaðir að borði,“ segir Linda.

3-4 msk. smjör eða olía til steikingar
200 g sveppir, gott að blanda saman tveimur tegundum af sveppum
1 ½ dl rjómi eða piparostur
1/2 grænt epli, smátt skorið
2 dl balsamikediksgljái
½ msk. hunang
pipar og salt eftir smekk
radísuspírur til skreytingar

Skerið hverja flatköku í þrjá hluta. Steikið upp úr smjöri á pönnu á báðum hliðum og leggið á á disk. Skerið sveppina frekar smátt niður og steikið upp úr smjöri eða olíu í um 4 mín.

Hellið rjómanum yfir og sjóðið niður með sveppunum. Látið krauma í smástund eða þar til rjóminn hefur þykknað. Bætið eplunum saman við, bragðbætið með pipar, salti eða smávegis sojasósu eftir smekk.

Bætið balsamikediki og hunangi saman við og hrærið vel saman, passið að blandan verði ekki of þykk. Setjið svepparéttinn á flatkökusneiðarnar. Hellið gljáanum yfir og allt um kring. Skreytið með radísuspírunum.

Texti / Bergþóra Jónsdóttir 

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -