Föstudagur 24. janúar, 2025
-0.1 C
Reykjavik

Seiðandi súkkulaði

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Reglulega berast fréttir af hinum ýmsu rannsóknum sem benda til hollustu súkkulaðis og súkkulaðigrísir um allan heim gleðjast um leið og þeir teygja sig í eldhússkápinn og ná sér í einn bita með kaffinu. Það er löngu sannað að allt er gott í hófi og það á auðvitað við um súkkulaði eins og annað. Hér er uppskrift að afar girnilegri og gómsætri köku sem súkkulaðiunnendur ættu ekki að láta fram hjá sér fara.

Súkkulaðiterta með viskírjóma og marenstoppi

Súkkulaðibotn
smjör til að smyrja form
200 g súkkulaði
2 dl sykur
80 g smjör
salt á hnífsoddi
3 egg
1 dl möndluflögur

Smyrjið lausbotna form, u.þ.b. 24 cm, og sníðið smjörpappír í botninn. Setjið súkkulaði, sykur, smjör og salt í skál og bræðið vel saman yfir heitu vatnsbaði. Þeytið egg og möndluflögur saman í hrærivélarskál þar til blandan er orðin létt og ljós. Bætið eggjablöndunni smátt og smátt saman við súkkulaðibráðina með sleikju og hrærið varlega þar til blandan fer aðeins að stífna. Setjið deigið í formið og bakið við 175°C í 40-50 mín.
Smyrjið súkkulaðikreminu á kaldan súkkulaðibotninn og setjið viskírjómann ofan á kremið. Brjótið marensinn ofan á rjómann og skreytið gjarnan með því að dreypa örlitlu kaffisírópi yfir marensinn.

Súkkulaðiterta með viskírjóma og marenstoppi. Mynd /Karl Petersson

Súkkulaðimarens
3 eggjahvítur, geymið rauðurnar
½ tsk. lyftiduft
1 ½ dl sykur
¾ dl flórsykur
1 ½ msk. kakó

Hitið ofninn í 90°C. Þeytið eggjahvítur og bætið lyftidufti út í. Bætið sykri smátt og smátt saman við þegar eggjahvíturnar eru farnar að stífna og þeytið þar til blandan er stífþeytt. Sigtið flórsykur og kakó yfir blönduna og hrærið varlega saman við með sleikju. Teiknið hring af svipaðri stærð og súkkulaðibotninn og dreifið úr marensblöndunni innan hringsins, bakið í 1 klst. og 30 mín. Leyfið marensinum að kólna í ofninum. Þessi marens á að vera þurr að utan en svolítið blautur og klessulegur að innan.

Súkkulaðikrem
3 eggjarauður
5-6 msk. flórsykur
50 g smjör
100 g súkkulaði

Bræðið smjör og súkkulaði saman í skál yfir heitu vatnsbaði og látið síðan kólna aðeins. Þeytið eggjarauður og flórsykur saman í hrærivélarskál. Bætið súkkulaðibráðinni varlega saman við eggjarauðublönduna og hrærið vel.

- Auglýsing -

Viskírjómi
250 ml rjómi
½-1 msk. sykur, má sleppa
1 msk. viskí

Setjið rjóma og sykur saman í skál og þeytið aðeins saman. Bætið viskíi út í og þeytið að fullu.

Texti / Kristín Dröfn Einarsdóttir
Mynd / Karl Petersson
Stílisti / Ólöf Jakobína Ernudóttir

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -