Á meðan við bíðum spennt eftir nýjasta kökublaði Gestgjafans sem kemur út í þessari viku þá rifjum við upp eina æðislega uppskrift úr kökublaðinu frá árinu 2016. Gómsæt marengsrúlla, skemmtileg og fljótleg útfærsla af hinni klassísku marengstertu.
Marengsrúlla
8-10 sneiðar
4 eggjahvítur
150 g sykur
1 tsk. edik
1 tsk kartöflumjöl
1 ½ tsk. vanilludropar
2 rúllur, súkkulaðikarmellur (Cloetta Center eða Rolo?)
1 dl rjómi
1 banani
¼ l rjómi, þeyttur
2 msk. heslihnetur, fínt saxaðar
Hitið ofn í 160°C. Þeytið eggjahvítur þar til stífir toppar myndast, bætið sykrinum smátt og smátt út í. Setjið edik, kartöflumjöl og vanilludropa saman við og blandið vel. Dreifið deiginu yfir bökunarpappírsklædda ofnplötu og bakið í 20 mín.
Látið kökuna kólna í 3-5 mín. Hvolfið henni þá á bökunarpappír og látið kólna. Setjið karmellur og einn dl af rjóma í pott á miðlungshita og hitið þar til karmellurnar eru alveg bráðnaðar. Stappið banana með gaffli og blandið saman við þeytta rjómann ásamt heslihnetunum.
Dreifið karmellusósunni yfir marengsinn og síðan bananarjómanum, rúllið upp og skreytið með karmellusósunni og heslihnetum.
Tryggðu þér áskrift að Gestgjafanum í vefverslun
Umsjón / Guðrún Ýr Eðvaldsdóttir
Stílisti / Hanna Ingibjörg Arnardóttir
Mynd / Óli Magg