Sunnudagur 22. desember, 2024
-4.2 C
Reykjavik

Smákökur sem bráðna í munni

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Jólin verða seint fullkomnuð ef ekki eru smákökur í húsinu, bökunarlyktin ein og sér er til þess fallin að koma flestum í jólaskap í myrkasta skammdeginu. Meðfylgjandi er uppskrift að gómsætum Alfajores-smákökum sem bráðna í munni.

Sumir baka ótalmargar sortir fyrir jólin og keppast við að fylla allar áldollur af margvíslegu bökuðu góðgæti á meðan aðrir eiga eina til tvær uppáhaldsuppskriftir sem þykja ómissandi. Hvort sem kökurnar eru bornar fram með stöku mjólkurglasi fyrir börnin eða á fallegum bökkum í kaffiboðinu er eitt víst, jólin væru fátæklegri án þessara ljúfu bita.

Alfajores
u.þ.b. 12 smákökur

Þessar smákökur eru vinsælar í Mið- og Suður-Ameríku þar sem þær eru oft seldar á kaffihúsum ásamt bolla af rótsterku kaffi. Aðaluppistaðan í smákökunum er maísmjöl og smjör sem fá þær til að bráðna í munninum. Í okkar útfærslu dýfum við þeim að hluta til ofan í súkkulaði og sáldrum rifnu kókosmjöli yfir. Öðruvísi smákökur fyrir ævintýragjarna sælkera.

200 g smjör, saltað
80 g flórsykur
½ tsk. vanilludropar
1 tsk. rifinn sítrónubörkur
150 g maísmjöl
150 g hveiti
1½ dl Dulce de leche (hægt að kaupa tilbúið, t.d. frá Stonewall)
100 g dökkt súkkulaði
3 msk. kókosmjöl

Hrærið saman smjör og flórsykur þar til blandan verður létt og kremkennd, bætið vanilludropum og sítrónuberki saman við. Sigtið saman maísmjöl og hveiti. Hrærið það saman við smjörblönduna á lágri stillingu. Hvolfið deiginu úr skálinni á hveitistráðan flöt og hnoðið létt til. Fletjið út í disk og vefjið plastfilmu utan um. Geymið í kæli í hálftíma.

Hitið ofninn í 170°C og leggið bökunarpappír ofan á ofnplötu. Takið deigið úr ísskápnum og látið standa í 5 mínútur til að mýkja deigið aðeins. Fletjið út þar til það verður u.þ.b. 4 mm að þykkt. Notið kökuskera til að skera út form í deigið, ákjósanlegast er að nota form sem er 5 cm að þvermáli. Raðið smákökunum á ofnplötuna og setjið inn í kæli í 10-15 mínútur.

- Auglýsing -

Bakið í 10-12 mínútur eða þar til þær fara að gyllast við endana. Látið kólna á grind og smyrjið með dulce de leche. Setjið u.þ.b. 1 tsk. af karamellunni ofan á botninn á helming kakanna. Leggið síðan ósmurða smáköku ofan á og snúið botnunum í sitthvora áttina til að dreifa jafnt út karamellunni. Endurtakið við restina af smákökunum og raðið á grind.

Bræðið súkkulaðið yfir vatnsbaði og takið af hitanum. Dýfið smákökunum ofan í til þriðjungs eða hálfs og leggið síðan aftur á grindina. Sáldrið kókosmjöli yfir súkkulaðið áður en það storknar.

Umsjón / Nanna Teitsdóttir
Stílisti / Hanna Ingibjörg Arnarsdóttir
Ljósmyndari / Hákon Davíð Björnsson

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -