Lítið mál er að útbúa þetta einfalda og gómsæta brauð á grillinu en það er eitthvað mjög notalegt við að gera sitt eigið brauð frá grunni.
Ágætt er að baka brauð við óbeinan hita, þá bakast þau hægar og minni líkur á að þau brenni mikið. Hér gildir það sama og í brauðbakstri almennt, hnoðið deigið vel og vandlega og gefið því góðan tíma til að hefast. Síðan er mikilvægt að fylgjast með grillinu þannig að hægt sé að færa brauðin til og snúa eftir þörfum. Flóknara er það nú ekki.
Grillað brauð með lauk, osti og arabísku kryddi
4 stk.
brauðdeig:
300 g hveiti
1 tsk. þurrger
1 msk. sykur
1 tsk. salt
1 tsk. lyftiduft
2 dl hrein jógúrt
2 msk. olía
1 dl volgt vatn
ofan á:
2-3 msk. smjör, brætt
2 tsk. „Arabískar nætur“ – kryddblanda frá Pottagöldrum, eða önnur kryddblanda að eigin vali
1/4 rauðlaukur, mjög þunnt skorinn
1-2 dl rifinn ostur
2-3 greinar ferskur kóríander
gróft sjávarsalt
Blandið þurrefnunum saman og búið til holu í miðjuna. Blandið jógúrt, olíu og vatni saman og blandið smátt og smátt saman við þurrefnin. Hnoðið deigið vel saman í höndum. Látið það lyfta sér á hlýjum stað undir rökum klút í a.m.k. klst. eða þar til það hefur u.þ.b. tvöfaldast að umfangi. Mótið fjögur flatbrauð sem eru u.þ.b. 2 cm þykk. Hitið grill í u.þ.b. 220°C og grillið brauðin við óbeinan hita á annarri hliðinni. Snúið þeim þegar þau hafa tekið fallegan lit, penslið þá bökuðu hliðina með smjöri, stráið kryddi yfir og dreifið rauðlauk og rifnum osti ofan á. Grillið áfram þar til brauðið er bakað í gegn. Dreifið gjarnan ferskum kóríander og grófu sjávarsalti yfir áður en brauðið er borið fram.
Uppskrift/ Kristín Dröfn Einarsdóttir
Myndir/ Aldís Pálsdóttir
Stílisti/ Ólöf Jakobína Ernudóttir