Þessi baka er dásamleg en kasjúhnetu-sinnepsgljáinn gefur nýstárlegt og skemmtilegt bragð sem lyftir bökunni upp á annað stig. Spennandi og svolítið öðruvísi. Okkur þykir nauðsynlegt að bera fram þeyttan rjóma með þessari böku.
Súkkulaðibaka með kasjúhnetu- og sinnepsgljáa
10-12 sneiðar
180 g hveiti
100 g smjör
140 g sykur
1 tsk. salt
1 egg
100 g smjör
400 g dökkt súkkulaði, 56%
200 g sýrður rjómi
3 egg
3 eggjarauður
Hitið ofninn í 180°C. Setjið hveiti, smjör, sykur, salt og egg í hrærivélarskál, notið deig-krókinn og hrærið þar til deigið losnar frá skálinni og myndarlegur deigbolti hefur myndast. Bætið við hveiti ef deigið er of blautt. Pakkið deiginu í plastfilmu og geymið í kæli í 30 mín.
Fletjið deigið þá út og setjið í smurt bökuform, um 22-23 cm stórt. Látið deigið ná upp á brúnir formsins. Setjið bökunarpappír ofan á deigið og síðan farg, t.d. hráar kjúklingabaunir.
Bakið í 20 mín., takið út úr ofninum, fjarlægið pappírinn og fargið.
Lækkið hitann í 150°C.
Bræðið smjör og súkkulaði yfir vatnsbaði, látið kólna og blandið síðan sýrðum rjóma saman við ásamt eggjum og eggjarauðum. Setjið yfir botninn og setjið kökuna aftur inn. Bakið í ofni í 30 mín. Látið aðeins kólna og skreytið með kasjúhnetunum. Berið fram með rjóma.
Kasjúhnetu- og sinnepsgjlái
100 g kasjúhnetur
6 msk. hunang
2 msk. hunangssinnep
2 msk. vatn
Ristið kasjúhneturnar á þurri pönnu, setjið til hliðar. Setjið hunang, sinnep og vatn á pönnuna og blandið vel. Blandið hnetunum saman við og látið malla svolitla stund, eða í 2-4 mín. Látið kólna á smjörpappír.
Umsjón / Bergþóra Jónsdóttir
Mynd / Aldís Pálsdóttir
Stílisti / Hanna Ingibjörg Arnarsdóttir