Súrbjórar er eitthvað sem allir ættu að smakka. Það er bara þannig. Þeir verða til fyrir tilstilli baktería (lactobacillus, pedicoccolus o.f.) og villigerla (brettanomyces) sem eru óæskilegir í hefbundnum bjórum og má því segja að þeir séu bastarðar bjórheimsins. Þegar þeir eru vel gerðir eru þetta hins vegar engir bastarðar, heldur áhugaverðustu og margslungnustu bjórar sem fyrir finnast. Hér er létt yfirferð yfir helstu stíla.
Lambic
Uprunninn og framleiddur í Pajottenland, suðvestan við Brussel, og í Brussel sjálfri. Lambic er eitt af margslungnari fyrirbærum bjórheimsins og er framleiðslan eftir því. Þegar grunnbjórinn hefur verið bruggaður er hann látinn standa yfir nótt í gríðar stórum og opnum körum (coolship) sem gerir það að verkum að villt ger (brettanomyces) og bakteríur (lactobacillus og pediococcus) komast í bjórinn.
Þessi þrenning fær síðan að vinna sína vinnu í stórum eikartunnum í marga mánuði og stundum nokkur ár. Ungur lambic getur oft verið með ansi harkalega sýru og er því oft blandað saman eins árs, tveggja ára og þriggja ára lambic til að búa til bjór sem er í betra jafnvægi og kallast sá bjór Gueuze. Oft er líka bætt við heilbrigðum skammti af kirsuberjum til þess að búa til Kriek en það er einnig notast við aðra ávexti eða blóm til að bragðbæta. Óbragðbættur lambic eða gueuze er ávalt sæmilega súr með margslunginn og „fönkí“ ilm en bragðbættur tekur hann auðvitað bragð úr ávextinum sem er bætt við.
Gose
Gose er bjórstíll sem er upprunninn í smábænum Goslar í þýskalandi. Sérkenni stílsins er að salt og kóríander er notað í framleiðslunni og er bjórinn sýrður með lactobacillus samhliða venjulegri gerjun. Ávaxtaviðbætur hafa unnið á í vinsældum, sérstaklega í Bandaríkjunum. Bjórinn er yfirleitt í kringum 5%, afar frískandi, létt-súr og má finna keim af kóríander.
Berliner Weisse
Berliner Weisse er annar bjórstíll sem er upprunninn í Þýskalandi og var lengi vel vinsælasti áfengi drykkur Berlínar. Bjórinn er oftast frekar lár í áfengisprósentu (3-4%) og er hann yfirleitt gerjaður með blöndu af geri og lactobacillus. Eins og með Gose hefur verið afar vinsælt að bragðbæta Berliner Wisse.
Flanders red/Ous bruin
Báðir þessir stílar eiga uppruna sinn að rekja til flæmska hluta Belgíu og eiga það einnig sameiginlegt að vera gerjaðir með blöndu af venjulegu geri og lactobacillus en einnig fær villt ger eins og brettanomyces að fljóta með. Flanders red fær dimmrauðan lit sinn frá maltinu sem er notað og að sama skapi fær Oud Bruin sinn dökk-brúna lit frá maltinu. Báðir bjórar spila svolítið á jafnvægi sýru og sætu, ólíkt hinum frekar þurru Lambic eða Gueuze.
Umsjón / Eymar Plédel Jónsson og Dominique Plédel
Sjá einnig: Bjór og nokkur af mörgum andlitum hans