Þó svo að gaman sé að bjóða upp á margar tegundir þegar gesti ber að garði er raunveruleikinn sá að sjaldnast er tími til þess að bjóða upp á margar sortir. Ein góð og mikil terta sem dugar fyrir alla gestina er oft besta lausnin og þá er líka minni hætta á að gestgjafinn sitji uppi með mikla afganga, sem hann oftar en ekki freistast til að klára sjálfur dagana á eftir, við þekkjum þetta öll, er það ekki?
SÚKKULAÐIKAKA
fyrir 10-12
2 1/2 dl rjómi
1 msk. borðedik
4 dl hveiti
4 1/2 dl sykur
2 dl kakó
1 1/2 tsk. lyftiduft
2 tsk. vanilludropar
1 tsk. salt
3 egg
120 g smjör, brætt
2 1/2 dl sterkt kaffi
Setjið rjóma og edik saman í skál og látið standa í 5-10 mín. (eins má nota 2 1/2 dl af súrmjólk í stað rjóma og ediks). Setjið hveiti, sykur, kakó, lyftiduft, vanillusykur og salt saman í skál. Bætið rjómanum, eggjum og smjöri út í og hrærið saman. Setjið kaffi út í og blandið vel. Athugið að deigið er þunnt. Setjið bökunarpappír í botninn á tveimur formum sem eru 24 cm í þvermál. Smyrjið formin vel og skiptið deiginu á milli þeirra. Athugið að ef notuð eru form með lausum botni getur verið nauðsynlegt að setja álpappír utan um þau til þess að koma í veg fyrir að deig leki í ofninn. Bakið í u.þ.b. 25 mín. Látið botnana kólna alveg áður en kremið er sett á kökuna.
KREM
350 g 70% súkkulaði
230 g smjör, við stofuhita
3 msk. kakó
8 msk. flórsykur
1 tsk. vanillusykur
salt á hnífsoddi
4 msk. rjómi
Bræðið súkkulaði yfir vatnsbaði og látið kólna. Hrærið smjör, kakó, flórsykur, vanilludropa og salt vel saman þar til blandan er mjúk og kremkennd. Bætið þá rjóma saman við og hrærið áfram. Bætið súkkulaðinu saman við og hrærið áfram af krafti í 3-4 mín. Smyrjið kreminu á milli botnanna og yfir alla kökuna.
Umsjón / Kristín Dröfn Einarsdóttir
Myndir / Heiða Helgadóttir
Stílisti / Ólöf Jakobína Ernudóttir