Á veitingastaðnum YUZU á Hverfisgötunni er lögð áhersla á góðan og framandi mat með áherslu á hamborgara. Hönnunin er sótt í japanska hugmyndafræði enda er bragðheimurinn að miklu leyti þaðan. Í nýjasta tölublaði Gestgjafans er viðtal við Hauk Má Hauksson yfirmatreiðslumann staðarins.
„Við ákváðum að gera hamborgarastað í nýrri útfærslu í fallegu umhverfi,“ segir Haukur Már.
„Ég elska hamborgara og hef því gengið með þann draum í maganum að taka þá upp á næsta „level“ eins og sagt er. Ég lærði á Fiskmarkaðnum, hjá Hrefnu Rósu, og þar kviknaði áhugi minn á japanskri matargerð en við buðum meðal annars upp á sushi. Til að útvíkka þá þekkingu og þroskast sem matreiðslumaður fór ég svo til London og vann á staðnum Zuma í um hálft ár en þar er unnið með japanska nútímamatargerð. Eftir það var ég yfirmatreiðslumaður á Grillmarkaðnum og þá kynntist ég Jóni Davíð og Sindra sem reka verslunina Húrra, en ég var hálfgerður fastakúnni í búðinni,“ útskýrir hann hlæjandi.

„Þeir reka pizzastaðinn Flatey ásamt öðrum og við fórum að spjalla um að okkur langaði að gera eitthvað saman. Saman stofnuðum við svo YUZU sem opnaði hér á Hverfisgötunni í nóvember sl.“
Nánara viðtal við Hauk, myndir af staðnum og uppskriftir eru í nýjasta tölublaði Gestgjafans, 4. tbl. 2020.
Tryggðu þér áskrift að Gestgjafanum í vefverslun
