- Auglýsing -
Fíkjutré koma víða við sögu í menningu og trúarbrögðum og á Kýpur til forna voru fíkjur tákn um frjósemi. Fíkjutré hafa verið ræktuð frá fornu fari í Asíu og við Miðjarðarhafið. Þurrkaðar fíkjur nefnast gráfíkjur en þær eru trefja- og hitaeiningaríkari en ferskar. Þær eru frábærar í bakstur og hér erum við með uppskrift af dásamlegu fíkjubrauði.
Fíkjubrauð
300 g gráfíkjur, heilar
3 dl sjóðandi vatn
10 dl spelt, fínt og gróft
4 tsk. vínsteinslyftiduft
1 tsk. salt
½ tsk. vanilluduft
100 g valhnetur, grófsaxaðar
100 g heslihnetur, grófmalaðar
4 dl ab-mjólk
nokkrar valhnetur til að setja ofan á
Hitið ofninn í 180°C. Setjið gráfíkjur í skál og hellið sjóðandi vatni yfir. Hrærið allt sem er í uppskriftinni varlega saman í skál. Bætið gráfíkjum við ásamt vatninu. Setjið í 2 meðalstór brauðform. Leggið valhnetur ofan á brauðdeigið og bakið í 40 mín.
Umsjón / Jóhanna Viggósdóttir
Mynd / Ernir Eyjólfsson
Stílisti / Ólöf Jakobína Ernudóttir