Þriðjudagur 24. desember, 2024
0.8 C
Reykjavik

Vegan-kaka í glæsilegu kökublaði Vikunnar

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Kökublað Vikunnar sem margir bíða spenntir eftir ár hvert er komið í verslanir. Sigríður Björk Bragadóttir, framkvæmdastjóri og eigandi Salt eldhúss, er ein þeirra sem deilir uppskrift í blaðinu en hún er að eigin sögn forfallin smákökubakari. Hér bakar hún ljúffenga vegan-köku.

Myndir / Hallur Karlsson

Uppskriftin sem Sirrý deilir með lesendum er að hennar sögn bæði yndisleg, óvenjuleg og vegan. „Ég keypti kökubók í London í haust sem er tileinkuð börnum í Sýrlandi og er þáttur í fjáröflun til styrktar börnum þar. Margir þekktir bakarar koma að bókinni og gefa vinnu sína. Þeir fengu fyrirmæli um að velja hráefni frá þessu svæði, löndum fyrir botni Miðjarðarhafs, nota döðlur, möndlur, kardimommur, hunang, rósavatn og fleira. Fyrsta kakan sem ég bakaði úr bókinni sló í gegn hjá fjölskyldunni og vinahópnum. Mig langar að gefa uppskrift að minni útgáfu af þessari yndislegu og óvenjulegu köku. Kakan getur verið vegan ef notað er eggjalíki í stað eggja og vegan-súkkulaði í súkkulaðibráðina og þá er auðvitað ekki borin jógúrt með.“

Möndlukaka með súkkulaði og kardimommum

200 g möndlur með hýði
100 g kókosmjöl
100 g ferskar döðlur, steinhreinsaðar, vigt án steina
3 egg (eggjalíki fyrir vegan)
140 g kókossykur
1 ½ dl olía
¾ dl kókosmjólk
6-8 kardimommuhylki, nota fræin innan í, möluð í mortéli eða kryddkvörn
börkur af 1 lífrænni sítrónu eða lítilli appelsínu
1 tsk. lyftiduft
¼ tsk. salt
1 tsk. vanilludropar
1 tsk. rósavatn (má sleppa)

Hitið ofninn í 180°C eða 165°C á blástur. Setjið möndlur og kókosmjöl í matvinnsluvél og malið fínt, setjið í skál og geymið. Setjið döðlur og egg í matvinnsluvélina og vinnið vel saman. Bætið möndlublöndunni út í ásamt öllu öðru sem fer í kökuna og vinnið saman í deig. Setjið bökunarpappír í botn á 22 cm breiðu formi, má hvort heldur vera kringlótt eða ferkantað. Berið olíu á innri hliðar á forminu. Hellið deiginu í formið og bakið þetta í miðjum ofni í 40-45 mínútur. Látið kökuna kólna í 10 mín. og færið síðan úr forminu og setjið á fallegan disk. Setjið súkkulaðibráð ofan á kökuna þegar hún er orðin köld. Skreytið með grófum kókosflögum eða þurrkuðum rósablöðum. Berið fram með „labneh“ með rósavatni þ.e. þykkri bragðbættri jógúrt.

Súkkulaðibráð
80 g súkkulaði, 70%
4 msk. kókosmjólk

Bræðið saman við vægan hita í vatnsbaði.

- Auglýsing -

Labneh með rósavatni
3 dósir lífræn jógúrt
2 msk. hlynsíróp (mable syrup), eða annað sem hentar ykkur að sæta með
1 tsk. sítrónubörkur, eða eftir smekk
½ tsk. rósavatn, eða eftir smekk

Síið vatnið úr jógúrtinni með því að setja jógúrtina í trekt með kaffifilter yfir skál eða könnu og látið standa yfir nótt. Með því fáið þið „labneh“, dásamlega kremaða jógúrt sem passar að bera fram með eftirrétti t.d. í staðinn fyrir þeyttan rjóma (nota má mysuna sem verður eftir t.d. í brauðdeig). Blandið sírópi, sítrónuberki og rósavatni í þykku jógúrtina. Smakkið síðan til.
Rósavatn fæst í Melabúðinni og í Krydd- og tehúsinu. Þurrkaðar rósir hafa stundum fengist í Tiger, annars á Netinu.

Kökublað Vikunnar er glæsilegt sem aldrei fyrr og þar er að finna fjölda flottra kökuuppskrifta. Forsíðumynd blaðsins tók Heiðdís Guðbjörg Gunnarsdóttir.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -