Laugardagur 21. desember, 2024
-0.2 C
Reykjavik

Villta vestrið í áfengissölu eða er þetta framtíðin?

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Áður en ég byrja að skrifa um hvort vínvefverslun eigi að vera lögleg eða ekki, vil ég taka skýrt fram að ég er með litla vínvefverslun sjálfur, og er ekki að þykjast vera hlutlaus.

Í þessari grein vil ég aftur á móti ræða um kosti og galla fyrir minni aðila eins og mig við fyrirkomulag hjá Á.T.V.R., vínvefverslun, og almennt frjálsa vínsölu. Við skulum byrja með:

Á að leggja niður Á.T.V.R.?

Mitt svar er nei, það er ekki tímabært akkúrat núna. En Á.T.V.R. verður að aðlaga sig nútímanum. Síðan ég kom heim frá Bandaríkjunum, fyrir mörgum árum, hefur Ríkið, eins og við þekkjum það, breyst gríðarlega mikið. Í þá daga var bjór ekki leyfður, okkur almúganum var einfaldlega ekki treystandi. Fullyrt var að við myndum liggja full dag og nótt. Svo þegar bjórsala var leyfð var upphaflega ekki hægt að kaupa nema í kippum. Svo vildi yfirmaður Á.T.V.R. ekki leyfa áfengt gos, ég þekki það vegna þess að ég spurði Höskuld sjálfur, hann hélt því fram að það væri of líkt gosi og myndi þannig hvetja unglinga til að drekka meira. Þetta er bara brot af því sem mátti ekki gera í gegnum árin, en sem betur fer hefur það breyst og landið er enn þá í lagi og við almúginn sitjum ekki að sumbli dag og nótt.

Á.T.V.R. eins og hún er rekin í dag hefur gríðarlega metnaðarfullt fólk, bæði frammi í sal og á skrifstofunni, og þess er krafist að starfsfólkið læri mjög mikið um vín, bjór og annað sem er selt í búðunum. Mér finnst þau eiga hrós skilið fyrir að leggja svona mikla áherslu á menntun hjá starfsfólkinu. Þegar vínsölu verður breytt, get ég lofað að engin stórverslun verður með eins vel menntað starfsfólk og Á.T.V.R., hvorki í léttvíni, bjór né öðru. En á sama tíma, má starfsfólk ekki halda úti sínu eigin bloggi eða vefsíðu þar sem fjallað er um vín, má ekki halda vínnámskeið fyrir almenning og má ekki fara á vínkynningu hjá aðilum sem eru með vín í sölu hjá Á.T.V.R. nema hún sé haldin á vegum Á.T.V.R.. Það er því minni hvati fyrir starfsfólk að mennta sig meira að mínu mati.

En Á.T.V.R. er hlutlaus að minnsta kosti, er það ekki?

- Auglýsing -

Já og nei. Ég ætla að útskýra ferlið við að koma víni á reynslulistann.

Fyrst þarf fyrirtæki að koma með prufur af víninu og vöruvottun og greiða 33.000 kr. fyrir hvert vín sem þau sækja um í reynslulistanum, og svo kemst vínið í sölu eftir sex til átta mánuði. Ef vínið nær ekki lágmarkssölu dettur það úr reynslulistanum og þú þarf að taka til baka óselt vín og endurgreiða andvirði þess sem var skilað. Talið er að 80% af víni á reynslulistanum nái ekki sölulágmarkinu í fyrstu þremur til fjórum tilraunum, sem þýðir að umboðsaðili er búinn að eyða 99.000 kr. eða meira til að komast inn í Á.T.V.R. með eitt vín! Ég er með sjö vín sem ég setti á reynslulistann og ég reikna með að eitt til tvö þeirra komist í kjarna í fyrstu tilraun EF ég er heppinn.

En þetta er mun auðveldara fyrir stærri umboðsaðila, t.d. ef ég sé að það þarf að selja 50 flöskur af ákveðinni tegund af víni sem er í reynslusölu hef ég val, kaupa það sjálfur eða láta það detta út. Ég, sem lítill aðili, hef ekki efni á að kaupa þetta magn til baka, og sitja með það í vöruhúsi sem ég þarf að borga leigu fyrir, og með engan stað til að kynna vínin, og þarf að bíða í nokkra mánuði í viðbót til að borga aftur 33.000 krónur svo vínið komist aftur í reynslusölu, sem er yfirleitt fjögurra til átta mánaða bið! Stórir víninnflutningsaðilar lenda yfirleitt ekki í að gera þetta aftur. Algengt er, að ef þeir sjá að það vantar herslumun upp á að vínið komist í kjarnann, þá kaupa þeir sjálfir nóg til að halda víninu í kjarna. Vínið er svo endurselt til Á.T.V.R. eða selt til veitingahúsa með vægu skammtímatapi. Þarna sést að á meðan vínið mitt situr og safnar ryki í vöruhúsi á meðan ég bíð eftir að komast aftur í reynslu, þá geta stóru fyrirtækin keypt sig inn í kjarnann sökum fjárhagsstöðu. Svo er algengt að sjá vín sem var langt í frá að komast í gegnum reynslusölu, eða er að detta út úr kjarna, boðin til veitingahúsa á lægra verði til að losna við lagerinn.

- Auglýsing -

Hvernig myndi vínvefverslun hjálpa minni aðilum?

Fyrst skulum við vera raunsæ, ástæðan fyrir því að meðalstórir vínumboðsaðilar eru logandi hræddir við að heimila vínvefverslun er sú að þeir vita að þeir fá takmarkað eða jafnvel lítið pláss á vefsíðum stóru keðjanna. Stóru verslanirnar eru annaðhvort komnar með vínumboð nú þegar eins og Hagar eru með, eða eru í startholunum. Meðalstórum aðilum eða litlum aðila eins og mér verður ekki boðið að vera með, þetta er bara staðreynd. Fyrir utan sínar eigin vörur verður að öllum líkindum bara stærstu vín- og bjórumboðsaðilum boðið að vera með hjá stórverslununum. Hagar eru nú þegar að flytja inn og selja í Á.T.V.R talsvert margar tegundir af léttvíni og bjór.

Þetta eru skiljanlegar áhyggjur fyrir marga umboðsaðila.
Af hverju vil ég þá leyfa vínvefverslun?

Mjög einfalt, það er eini staðurinn sem ég hef til að kynna vínið mitt, og satt að segja eru þó nokkrir litlir aðilar sem hafa engan annan stað til að kynna sína vöru. Í vínvefversluninni get ég notað mína þekkingu og sérstöðu til að kynna vöruna frá mér og öðrum minni aðilum sem hafa engan annan stað til kynninga. Ekki getum við auglýst í blöðum eða sjónvarpi hérlendis þar sem lög leyfa það ekki (það er efni í grein út af fyrir sig). Ekki getum við kynnt okkar vöru í veitingahúsum vegna þess að um 70% af víni sem selt er í veitingahúsum er frá tveimur aðilum, og veitingahúsin eru samningsbundin þeim (raunveruleikinn bak við þetta væri efni í góða grein líka). Hin 30% af sölunni er slegist um og hægt er að segja að fjórir meðalstórir aðilar eigi stærstan part af sölunni þar.
Að vera með vínvefverslun gefur mér og öðrum innflutningsaðilum tækifæri á að kynna og selja okkar vöru og gefur okkur tækifæri til að standa betur jafnfætis stærri aðilum sem eru meðal annars að rúlla yfir okkur í Á.T.V.R. vegna stærðar þeirra. Að minnsta kosti höfum við loksins tækifæri til að keppa við þá.

Verð ég ríkur á að vera með vínvefverslun?

Nei, en það gerir mér kleift að bjóða upp á gæðavöru og kynna hana með námskeiðahaldi og fyrirlestrum.


Höfundur þessarar greinar er Stefán Guðjónsson, framreiðslumeistari og vínþjónn með 40 ára reynslu í veitingahúsum og vel þekktur fyrir vínþekkingu sína á Íslandi og hefur meðal annars skrifað um vín í blöðum og á vefnum. Hægt er að hafa samband við Stefán á netfanginu [email protected]

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -