
Anna Kristjánsdóttir stríðir vini sínum frá Akureyri í nýjustu dagbókarfærslu sinni og gerir lítið úr „hitabylgjunni“ fyrir norðan.
Vélstjórinn og húmoristinn Anna Kristjánsdóttir er með skemmtilegri pennum landsins en hún hefur haldið úti opinberri dagbók á Facebook frá því að hún flutti til Tenerife fyrir rúmum fimm árum síðan. Þar má lesa um hinar ýmsu heimsóknir Íslendinga á paradísareyjuna, ævintýri á „Klausturbar“ og fleira skemmtilegt. Í nýjustu færslunni gerir hún góðlátlegt grín að vini sínum sem var í viðtali á RÚV í fyrradag.
„Best að byrja á einu sem ég gleymdi að færa til bókar í gær, eða réttara sagt í fyrrakvöld. Sigurður Þorri Gunnarsson vinur vor frá Akureyri var í síðdegisútvarpinu í fyrradag og lýsti þar hitanum á Akureyri og svei mér þá ef hann talaði ekki um hitabylgju. Allavega voru þau á RÚVAK að fá sér ís í hitanum sem hafði náð heilum ellefu gráðum á Celsíus.“
Önnu finnst 11 gráður hreint ekki vera hiti til að hrópa húrra fyrir:
„Bíddu hæg. Ellefu gráður á Celsíus er ekki hiti. Það er ískuldi og maður fær sér ekki ís í slíkum hamfarakulda. Við verðum samt að virða það við Sigga að hann er Akureyringur og við tölum um akureyskar grobbsögur með varúð.“
„Að lokum snýr Anna hnífnum örlítið í sárið og talar um kulda á Tenerife:
Hér hefur verið hræðilega kalt að undanförnu, hitinn rétt náð að skríða yfir tuttugu gráðurnar yfir daginn, en ekki mikið meira en það. En ellefu gráður er kaldara en ég get sætt mig við.“
Komment