
Anna Kristjánsdóttir hættir sér á háskalega braut í dagbókarfærslu dagsins en þar talar hún um woke-isma.
Um fátt hefur verið talað um á samfélagsmiðlum Íslendinga undanfarið en woke-isma en ástæðan eru rifrildi Hallgríms Helgasonar og Sólveigar Önnu Jónsdóttur í viðtali á Samstöðinni á sunnudaginn. Anna Kristjánsdóttir, vélstjóri og húmoristi skrifaði um þetta fyrirbæri í nýjustu dagbókarfærslu sinni frá Tenerife. Færslan hefst á eftirfarandi orðum:
„Dagur 2065 – Vók eða Woke?
Það hafa illskeyttar deilur verið bæði á netmiðlum og í fjölmiðlum um eitthvað sem kallað er Vók eða Woke, þó sennilega ekki Vogue sem er hið ágætasta fyrirtæki með heimilisvörur í Reykjavík og á Akureyri. Einhvernveginn hljómar þessi illskeytta umræða fyrir mér eins og deilur um ágæti Vogue.“
Anna fer því næst yfir umræðuna á Íslandi um hugtakið:
„Á Íslandi lenti ágætur rithöfundur og góður kunningi minn í deilum við verkalýðsleiðtoga í útvarpsþætti um það hvort vók eða woke sé gott eða slæmt, ónefnt alþingisman fann woke allt til foráttu og svo má lengi telja og á samfélagsmiðlum virðast margir ekki vita almennilega vita fyrir hvað woke stendur fyrir. Sumir virðast telja þetta vera samheiti fyrir „góða fólkið“ til vinstri sem er að reyna að hafa vit fyrir „vonda fólkinu“ til hægri en svo eru aðrir sem skilja hvorki upp né niður í þessu nýyrði sem skyndilega tróð sér með látum inn í íslenskt málsamfélag, án þess að uppfylla nein skilyrði þess að verða að íslensku orði.“
Í umfjöllun sinni um woke-isma segir Anna að lokum að til séu mörg orð yfir fyrirbærið á íslensku, meðal annars kærleikur og samhjálp.
„Íslensk tunga á mörg orð sem ná yfir þetta hugtak, kærleikur, miskunnsemi, stuðningur, samhjálp og mörg önnur. Því finnst mér óþarfi að afbaka íslenska tungu með þessu orði og lofum Vogue að eiga sitt orð í friði þótt það sé ekki heldur íslenskt, en er búið að festa sig á Íslandi fyrir mörgum áratugum síðan, reyndar einhverjum mánuðum eldra en ég sem er þó löngu komin á eftirlaun.“
Komment