
Fyrirtækið Lost International hefur tekið ákvörðun um að lögsækja Lady Gaga fyrir vörumerkjalögbrot vegna plötu hennar „Mayhem“ en fyrirtækið heldur fram að það eigi réttinn á hugtakinu. Það sé notað sem merki brimbrettafyrirtækisins og að notkun Lady Gaga sé í raun nánast eins.
Í málssókninni, sem TMZ hefur undir höndum, segir brimbrettafyrirtækið að það hafi sett stílfærða útgáfu af orðinu „Mayhem“ á brimbretti sín og varning í meira en áratug og að Gaga hafi stolið hönnuninni fyrir nýjustu plötu sína.
Lost hefur lagt fram samanburðarmynd af „Mayhem“ merkinu á varningi þeirra og því sem Lady Gaga er að nota á sínum. Brimbrettafyrirtækið segir að það hafi átt vörumerkið síðan 2015 og að Lady Gaga sé nú að nota merkið án leyfis.
Lost segist hafa sent söngkonunni athugasemdir sínar, en hún hafi ekki hætt að nota merkið. Þess vegna hafi verið ákveðið að fara í mál við hana. Fyrirtækið vill stöðva Lady Gaga í að nota merkið og krefst skaðabóta, þar á meðal hagnaðar sem hún kann að hafa haft af notkun „Mayhem“ merkisins.
Lady Gaga hefur ekkert tjáð sig um lögsóknina.

Komment