1
Fólk

Heitur Bubbi

2
Innlent

María og Gunnar eiga 28 husky hunda

3
Innlent

Gylfi ver Epstein

4
Fólk

Veitingamaður selur lúxusvillu á Arnarnesi

5
Innlent

Hafnfirðingar toppa Reykvíkinga

6
Innlent

Lúpína innkölluð af Heilbrigðiseftirliti Reykjavíkur

7
Innlent

Björguðu þremur af þaki sökkvandi bíls

8
Fólk

Játar fordóma gegn hinsegin fólki

9
Minning

Þorvarður Alfonsson er látinn

10
Skoðun

Árangurstengjum laun kennara?

Til baka

Björn Leví Gunnarsson

Eina leiðin til þess að fá ábyrg stjórnmál - Að vera þingmaður 10. kafli

Björn Leví Gunnarsson
Björn Leví Gunnarsson

Pólitík er skrítin tík, sagði einhver. Ástæðan fyrir því, samkvæmt minni reynslu, er að sumir pólitíkusar blekkja kjósendur sína. Til dæmis vita flestir að Brexit var byggt á blekkingum. Loforð um þjóðaratkvæðagreiðslu um áframhaldandi ESB viðræður voru sviknar af ríkisstjórninni sem tók við árið 2013 út af „pólitískum ómöguleika”. Ófrávíkjanleg krafa Flokks fólksins um 350 þúsund krónur skatta og skerðingalaust hvarf um leið og flokkurinn hafði möguleika á að komast í ríkisstjórn, … Listinn af pólitískum mótsögnum - þar sem eitt er sagt en annað gerist - er óendanlegur. 

Í síðustu grein sagði ég:

„Nánar tiltekið, þá spila sumir leikinn óheiðarlega - og við vitum ekki hverjir það eru. Það er bókstaflega ómögulegt að sjá það utan frá hver beitir óheiðarlegum aðferðum og hverjir eru í góðri trú. En það eru vísbendingar. Því miður ekki fullkomlega áreiðanlegar vísbendingar.“

Vandinn er nefnilega að oft er ekki hægt að sjá það fyrr en eftir á hvort kosningaloforð verði svikin eða ekki - eða hvort pólitískar fullyrðingar standast þegar á hólminn er komið. En eins og ég sagði áður, vísbendingarnar eru alls staðar. 

Gamall brandari

Hvernig veistu hvort stjórnmálamaður sé að ljúga eða ekki? Þegar hann lýgur er munnurinn opinn.

Ég á dálítið erfitt með þennan brandara, því ég skil vel af hverju hann er til. En á sama tíma veit ég líka að lang flestir pólitíkusar á Alþingi Íslendinga vilja vel. Meina vel. Reyna. Og í flestum málum tekst það einnig ágætlega. En það eru þessi örfáu átakamál og þessir örfáu pólitíkusar sem búa til þessa steríótýpu um hin lygna stjórnmálamann. Af hverju?

Þegar tilgangurinn helgar meðalið

Það er auðvelt að fordæma útúrsnúninga og óheiðarleika í pólitík - en til að skilja af hverju þeir virka, þarf að fólk. Pólitík er ekki hlutlaust svið þar sem bestu rökin sigra, pólitíkin er háð á tilfinningalegum vígvelli þar sem fólk bregst við myndum, sögum og ásýnd. Þar sem sannleikurinn er oft flókinn, óþægilegur eða óvinsæll, getur það reynst vera pólitísk sjálfsvíg að segja satt eða að viðurkenna að kosningaloforðið var einskis virði.

Í slíkum aðstæðum verður útúrsnúningur ekki bara hentugur - heldur nauðsynlegur. Af því að beint og heiðarlegt svar við spurningunni: „Lofuðuð þið upp í ermina á ykkur?” - myndi oft afhjúpa veikleika, sýna mótsagnir eða hreinlega staðfesta grun almennings um pólitíska spillingu. Og vegna þess að ferill stjórnmálamannsins lifir og deyr með ímynd sinni, verður sjálfsbjargarviðleitnin yfirsterkari og þá verður hæfileikinn til þess að víkja sér undan, snúa út úr og svara öðru en um var spurt - mjög mikilvægur.

Á bak við þetta liggur einföld krafa: Í pólitík er árangur mældur í áhrifum, ekki sannleika. Og ef sannleikurinn skilar ekki fylgi - af hverju ætti hann þá að vera sagður? Þegar völd eru markmiðið, verður sannleikurinn aðeins einn þáttur í stærra reikningsdæmi. Eins og Machiavelli benti á: Sá sem ræður þarf ekki að vera réttlátur - hann þarf að halda völdum. Það er ekki réttlætið sem tryggir stöðu leiðtogans, heldur hæfnin til að stýra skoðunum annarra.

Þannig helgar tilgangurinn meðalið – ekki vegna siðleysis, heldur vegna kerfisins sjálfs. Stjórnmálamenn ljúga ekki endilega af illvilja - þeir ljúga af þörf. Mannlegri þörf sem snýst um að viðhalda trúverðugleika og virðingu. 

Sjálfsbjargarviðleitni og völd

Í grunninn er pólitískur útúrsnúningur ekki bara spurning um áróður heldur um mannlega sjálfsbjargarviðleitni. Við erum öll bundin af þörfinni til að verja eigið orðspor, halda í traust annarra og forðast að verða afhjúpuð sem veik eða ótrúverðug. Í pólitík er þessi þörf margfölduð - öll mistök geta kostað álitshnekki og þar með völdin sem pólitíkusinn þarf að hafa til þess að búa til hina glæstu framtíð sem hann trúir á.

Þegar stjórnmálamaður stendur frammi fyrir spurningu sem ógnar ímynd hans, verður hreinskilin játning - „já, ég hafði rangt fyrir mér“ eða „nei, við getum það ekki“ - að beinni hættu við völd hans. Slíkt svar myndi ekki aðeins rýra trúverðugleika heldur staðfesta það sem gagnrýnendur hans hafa haldið fram. Afneitun, útúrsnúningur eða tilfinningaleg frásögn verða því eins konar varnarkerfi. Leið til að viðhalda ásýnd um stjórn og styrk, jafnvel þótt sannleikurinn sé annar.

Við könnumst öll við spurninguna „What can you tell me about a company called Wintris?“. Það var í raun ekki spurningin sem opinberaði vanda þáverandi forsætisráðherra - það var svarið. Það er alveg fræðilegur möguleiki að fágaður og yfirvegaður útúrsnúningur hefði bjargað ríkisstjórninni - en það gerðist ekki. Vandræðagangurinn við að svara spurningunni opinberaði allt. 

Pólitíski vígvöllurinn

Pólitískur vettvangur er fyrst og fremst vígvöllur, í ljóðrænum skilningi. Þar er keppt um völd, og þar með um almenningsálitið í hverju máli. Þar leggur fólk yfirleitt heiðarleika sinn og sanngirni að veði - reynir að  að tala af skynsemi og byggir á rökum. En þegar það dugar ekki þá freistast fólk ti þess að grípa til ómálefnalegri aðferða og þá verður heiðarleikinn sjálfur að veikleika.

Í þeim aðstæðum er gripið til annarra aðferða: slagorða sem hljóma betur en þau útskýra, tilfinningalegra frásagna sem virka sterkari en staðreyndirnar sjálfar, og jafnvel persónulegra árása sem draga athyglina frá kjarna málsins. Eins og Davíð Oddsson orðaði það:

„Ég gerði öll mál tortryggileg og fylgdi þeirri reglu veiðimannsins að maður má ekki einungis kasta flugu sem manni finnst falleg því að maður veit aldrei hvaða flugu laxinn tekur. Ég tók því upp öll mál, jafnvel þó að ég væri í hjarta mínu samþykkur þeim, og hjólaði í þau því að ég leit á stjórnarandstöðu sem stjórnarandstöðu.“

Þetta er heiðarleg frásögn sem opinberar svakalega óheiðarleg vinnubrögð, eða einfaldlega heimsku. Því þetta virðist snúast um orðið “stjórnarandstöðu” og að sá sem sé í stjórnarandstöðu eigi bara að vera í andstöðu við allt sem stjórnin gerir - bara af því að orðið segir það. En það kaldhæðnislega er að þessi vinnubrögð geta alveg virkað vel. Áhrifin af vel heppnaðri andstöðu getur skilað stjórnmálamanninum völdum. Vel heppnuð, en mögulega óheiðarleg andstaða.

Pólitíski útúrsnúningurinn er ekki alltaf sprottinn af illvilja eða lygagjörðum, heldur frekar af freistingum eða persónulegri sannfæringu þess að tilgangurinn helgi meðalið. Markmiðið er nefnilega göfugt og heimurinn verður betri þegar áætlanir stjórnmálamannsins sem veit best verða að veruleika. Enginn axlar hins vegar ábyrgð á því þegar það er rangt - tala jafnvel um ævintýralega slæma bankasölu sem bestu bankasölu í heiminum.

Erum við ekki öll svona?

Jú. Í rauninni. Flestir sem fara í pólitík vilja vel, trúa á lausnir sínar og reyna að gera rétt. En vígvöllurinn er miskunnarlaus og þá eru það aðferðir Machiavellis freistandi – ekki vegna þess að þeir hafni heiðarleikanum, heldur vegna þess að þeir eru mannlegir. Og við erum öll þannig. Hvert okkar hefur ekki, þegar mikið stendur til, reynt að mála hlutina í fegurri litum en tilefni er til?

En það sem við getum leyft okkur í daglegu lífi, eigum við ekki að sætta okkur við frá þeim sem fara með lýðræðislegt vald. Þau sem bera ábyrgð gagnvart heilli þjóð eiga að þola meiri kröfur - um heiðarleika og hreinskilni. Að sýna kjark til að velja sannleikann, jafnvel þegar hann er óþægilegur. Því lýðræðið sjálft hvílir ekki á útúrsnúningum, heldur á trausti.

Er það mögulegt? Kannski er fyrsta skrefið að viðurkenna að við erum öll viðkvæm fyrir sömu freistingum og þau sem fara með völdin. Munurinn er bara sá að þeirra ákvarðanir snerta okkur öll. Þess vegna verðum við að halda þeim heiðarlegum: með gagnrýninni hlustun, með kröfu um skýr svör, með því að láta slagorð og útúrsnúninga ekki nægja. Því lýðræðið er ekki aðeins spurning um að kjósa - það er spurning um að fylgjast með, spyrja og gera kröfu um ábyrgð. Pólitískur ómöguleiki á ekki að vera til. Það er gríðarlega mikilvægt að falla ekki í pólitískar skotgrafir og verja sína leiðtoga þegar þeir gera mistök. 

Við verðum að skilja að allir gera mistök. Líka fólkið sem við treystum fyrir atkvæðinu okkar. Þegar (alvarlegu) mistökin gerast, þá þökkum við þeim bara fyrir veitta þjónustu og bjóðum næsta að reyna að gera betur. Það er eina leiðin til þess að þau sem koma næst geri ekki sömu mistök. Reyni að gera betur. 

Kjósa
Hvernig finnst þér þessi grein? Skrá inn til að kjósa

Komment


Vilko heldur áfram að tapa tugum milljóna
Peningar

Vilko heldur áfram að tapa tugum milljóna

Ekkert hefur gengið upp hjá fyrirtækinu á undanförnum árum
Sameinuðu þjóðirnar skipa Ísrael að hætta hernámi á Gaza
Heimur

Sameinuðu þjóðirnar skipa Ísrael að hætta hernámi á Gaza

Endaði fullur á bráðamóttökunni
Innlent

Endaði fullur á bráðamóttökunni

Björguðu þremur af þaki sökkvandi bíls
Innlent

Björguðu þremur af þaki sökkvandi bíls

María og Gunnar eiga 28 husky hunda
Innlent

María og Gunnar eiga 28 husky hunda

Árangurstengjum laun kennara?
Skoðun

Davíð Már Sigurðsson

Árangurstengjum laun kennara?

Lúpína innkölluð af Heilbrigðiseftirliti Reykjavíkur
Innlent

Lúpína innkölluð af Heilbrigðiseftirliti Reykjavíkur

Játar fordóma gegn hinsegin fólki
Fólk

Játar fordóma gegn hinsegin fólki

Hafnfirðingar toppa Reykvíkinga
Innlent

Hafnfirðingar toppa Reykvíkinga

Veitingamaður selur lúxusvillu á Arnarnesi
Fólk

Veitingamaður selur lúxusvillu á Arnarnesi

Skoðun

Eina leiðin til þess að fá ábyrg stjórnmál - Að vera þingmaður 10. kafli
Skoðun

Björn Leví Gunnarsson

Eina leiðin til þess að fá ábyrg stjórnmál - Að vera þingmaður 10. kafli

Í liðinu - Að vera þingmaður 7. kafli
Skoðun

Björn Leví Gunnarsson

Í liðinu - Að vera þingmaður 7. kafli

Árangurstengjum laun kennara?
Skoðun

Davíð Már Sigurðsson

Árangurstengjum laun kennara?

Þegar þú þekkir mig betur en ég þekki mig - Að vera þingmaður: 9. kafli
Skoðun

Björn Leví Gunnarsson

Þegar þú þekkir mig betur en ég þekki mig - Að vera þingmaður: 9. kafli

Aukum við útsvar en ekki velferð barna?
Skoðun

Davíð Már Sigurðsson

Aukum við útsvar en ekki velferð barna?

Að fara eftir reglum - Að vera þingmaður 8. kafli
Skoðun

Björn Leví Gunnarsson

Að fara eftir reglum - Að vera þingmaður 8. kafli

Loka auglýsingu