
Kristrún Frostadóttir, forsætisráðherra og formaður Samfylkingarinnar, verður ein í framboði til formanns Samfylkingarinnar á landsfundi flokksins sem fer fram næstu helgi.
Frestur til að bjóða sig fram rann út þann 4. apríl og lagði ekki neinn í baráttu gegn sitjandi formanni en landsfundurinn fer fram í Stúdíó Fossaleyni í Grafarvogi.
Á dagskrá fundarins eru m.a. kosningar í öll embætti flokksins, almennar umræður, breytingartillögur á stefnu, hátíðarerindi og 25 ára afmælisfögnuður Samfylkingarinnar þar sem m.a. allir fyrrum formenn flokksins koma saman. Afmælisdagskrá fer fram laugardaginn 12. apríl kl. 13:30 og hefst á stefnuræðu formanns.
Guðmundur Árni Stefánsson varaformaður hefur gefið það út að hann ætli að bjóða sig aftur fram til varaformanns en hann hætti við að bjóða sig fram til Alþingis síðasta haust vegna veikinda.
Komment