
Margrét Tryggvadóttir, rithöfundur og fyrrverandi þingmaður, hefur fengið nóg af neikvæðri umræðu um trans fólk en hún gerir slíkt að umtalsefni í nýrri færslu sem hún setti á samfélagsmiðla í gær.
„Karlar sem beita konur ofbeldi gera það bara þar sem þeim sýnist. Þeir gera það á heimilum, skemmtistöðum, á víðavangi, í almenningsgörðum, bílum, í stigagöngum og á vinnustöðum, “ skrifar Margrét.
Hún segir að ætli karl sér að beita konu ofbeldi hafi hann ótal tækifæri til þess á hverjum degi, í flestum tilfellum.
„Karl sem ætlar að beita konu ofbeldi þarf ekki að dulbúa sig sem konu til að komast á kvennaklósett eða önnur sérrými kvenna og myndi sennilega aldrei gera það. Hann hefur óteljandi aðrar leiðir til að nálgast konur og vinna þeim mein. Óskilvirkasta leiðin fyrir hann væri alltaf að klæða sig í kjól og háa hæla.
Helstu rök TERF og annarra transfóbískra radda gegn tilveru transfólks eru að sís konum standi ógn af trans konum. Sú ógn er fullkomlega órökrétt og ekki studd neinum gögnum,“ heldur rithöfundurinn áfram.
„Ég veit ekki um eina einustu konu sem einhvern tímann hefur ekki fundist sér ógnað af sís karli eða hreinlega orðið fyrir ofbeldi af hendi sís karls og því miður oft fleiri en einum. Og auðvitað geta konur líka beitt ofbeldi. Mannskepnan er því miður skaðræði. Ekkert bendir þó til þess að trans fólk sé ofbeldisfyllra en aðrir en rannsóknir sýna að það er margfallt líklegra til þess að verða fyrir ofbeldi en annað fólk, sérstaklega trans konur.“
Þá segir hún að henni standi ekki ógn af trans fólki eða mannréttindum þess.
„Þvert á móti líður öllum betur í umburðarlyndu samfélagi þar sem öll fá rými til að lifa í friði samkvæmt eigin kynvitund og kynhneigð.
Látum ekki hræða okkur með andstyggilegum lygum og áróðri,“ skrifar hún að lokum.
Komment