
Her Suður-Kóreu greindi frá því í dag að hermenn þeirra hefðu skotið viðvörunarskotum þegar um það bil 10 norðurkóreskir hermenn fóru stuttlega yfir hina víggirtu landamæralínu sem skiptir Kóreuskaganum.
Hermennirnir sáust um kl. 17:00 að staðartíma á afvopnunarsvæðinu milli landanna, sem er sums staðar þakið jarðsprengjum og gróðri.
„Her okkar skaut viðvörunarskotum, og norðurkóresku hermennirnir færðu sig norður á bóginn,“ sagði í yfirlýsingu frá herráði Suður-Kóreu. „Her okkar fylgist náið með hreyfingum norðurkóresku hermannanna og grípur til nauðsynlegra ráðstafana.“
Sumir þeirra sem fóru yfir landamærin voru vopnaðir og klæddir skotheldum vestum. Norðurkóreskir hermenn hafa ítrekað farið stuttlega yfir landamærin á undanförnu ári, og sögðu yfirvöld í Suður-Kóreu þá að líklega hafi verið um slysni að ræða.
Tengsl milli Kóreulanda eru nú í einu sínu lakasta ástandi í mörg ár og hefur Norður-Kórea áður framkvæmt eldflaugaskot í tengslum við mikilvæga atburði í Suður-Kóreu.
Um það bil 1500 norðurkóreskir hermenn sáust hreinsa land og setja upp gaddavír á víglínu fyrir stuttu sagði talsmaður yfirvalda í Suður-Kóreu
Löndin eru tæknilega enn í stríði, þar sem átökin 1950–1953 enduðu með vopnahléi en ekki friðarsamningi. Norður-Kórea sprengdi í fyrra upp vegi og járnbrautir sem tengdu þau við Suður-Kóreu.
Yfirvöld í Suður-Kóreu hafa einnig lýst yfir áhyggjum af hlýnandi tengslum Pyongyang og Moskvu eftir að þau undirrituðu gagnkvæman varnarsamning í fyrra. Í kjölfarið hefur Norður-Kórea sent þúsundir hermanna og vopn til að aðstoða Rússa í stríðinu gegn Úkraínu.
Komment