
Þórólfur Júlían Dagsson tekur upp hanskann fyrir manninn sem handtekinn var í gær þegar hann var sagður ógna björgunarsveitarfólki sem var að aðstoða lögregluna við að rýma Grindavík.
Þórólfur, fyrrverandi oddviti Pírata í Reykjanesbæ og stjórnarmaður í Stranveiðifélagi Íslands, skrifaði Facebook-færslu í gær þar sem hann ver Hermann Ólafsson, Grindvíking og fyrrum forstjóri útgerðar- og fiskvinnslufyrirtækisins Stakkavíkur. Sérsveitin handtók Hermann í gær þar sem hann var sagður hafa ógnað björgunarsveitarmönnum með haglabyssu. Sjálfur segir Hermann í viðtali við mbl.is að hann hafi hreint ekki ógnað neinum með byssunni, heldur einungis setið fyrir á ljósmynd með byssunni í gríni og að björgunarsveitarfólkið hafi tekið vel í það. Lýsti hann gærdeginum sem þeim versta sem hann hafi lent í og ætlar hann að fara í skaðabótarmál gagnvart „þessu liði“.
Þórólfur segir málið „ótrúlegt og óásættanlegt“ og að hann hafi aldrei upplifað Hermann sem einhvern sem myndi gera öðrum mein:
„Það sem stendur upp úr í dag er að sérsveitin tók Herman, eða Hemma eins og hann er jafnan kallaður, sem kenndur er við Stakkavík, og skellti honum harkalega niður í götuna. Þetta er alveg ótrúlegt og óásættanlegt. Ég og Hemmi höfum vissulega átt okkar deilur um kvótakerfið, en aldrei hef ég upplifað að hann væri að fara að gera mér eða öðrum mein. Í dag tel ég Hemma góðan vin sem gott er að hitta og fá góð ráð hjá þegar á þarf að halda.“
Í seinni hluta færslunnar mærir Þórólfur Hermann sem hann segir mikilsvirtan í Grindavík og hafi lagt mikið af mörgum til samfélagsins. Segir hann það sláandi að sérsveitin telji nauðsynlegt að koma svona fram við sjötugan mann.
„Hermann hefur verið mikils virtur í Grindavík þar sem hann byggði upp farsælt fyrirtæki sitt, Stakkavík, frá grunni. Hann hefur lagt mikið af mörkum til samfélagsins, skapað atvinnu og styrkt stöðu bæjarins sem mikilvægs sjávarútvegsstaðar. Það er því enn meira sláandi að sérsveitin telji nauðsynlegt að fara svona harkalega fram gagnvart 70 ára gömlum manni, sem alla tíð hefur verið þekktur fyrir að vera gæða blóð og traustur maður í sínu samfélagi. Þetta atvik er einfaldlega fáránlegt og vekur margar spurningar.“
Komment