
Tollverðir á Keflavíkurflugvelli lögðu fyrir stuttu hald á 20 þúsund töflur af nitzane en það er eitt af hættulegustu eiturlyfjunum sem eru í umferð í dag. Í einhverjum tilfellum getur efnið verið þúsund sinnum sterkara en morfín.
Tvö ungmenni eru í varðhaldi vegna málsins en upphaflega var talið að um oxycontin væri að ræða. Ungmennin eru bæði konur á 18. og 19. aldursári. Gæsluvarðhald yfir þeim rennur út á morgun en þær eru vistaðar á Hólmsheiði. „Staðan á Íslandi hvað varðar geymslupláss fyrir sakborninga er slæm. Okkur gengur stundum erfiðlega að koma gæsluvarðhaldsföngum fyrir,“ sagði Úlfar Lúðvíksson, lögreglustjóri á Suðurnesjum, við RÚV um málið.
Báðar eru þær þýskar og hafa ekki nein tengsl við Ísland. „Rannsóknin snýr að því að reyna að átta sig á ferðaleið þessara stúlkna og hafa hendur í hári vitorðsmanna. Um það snýst rannsóknin,“ hélt Úlfar áfram.
Komment