
Verð á Freyju páskaeggjum hækka um 17 prósent milli ára í Bónus og Krónunni, mun meira en páskaegg Góu (13 prósent) og Nóa Síríus (9 prósent). Þau eru einnig dýrari en páskaegg Góu og Nóa í kílóverðssamanburði verðlagseftirlitsins. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá ASÍ.
Þar kemur fram að meðlaverð á páskaeggjum hækkar í lágvöruverðsverslunum um 12-17 prósent milli ára. Minnst hækkar verðið í Krambúðinni og 10-11 en mest í Extra og Kjörbúðinni, um 25-27 prósent milli ára.
Það var síðasta laugardag sem ASÍ framkvæmdi könnunina en daginn eftir lækkaði Nettó verð á páskaeggjum um 3,6 prósent og eru þau eru þau oftast á sama verði og í Krónunni.
Páskaeggin dýrust í Iceland, ódýrust í Prís
Prís bauð lægsta verðið á öllum 12 páskaeggjum sem þar voru til sölu en fjögur þeirra voru frá Freyju, þrjú frá Góu og sex frá Nóa Síríus. Að jafnaði var Iceland með hæsta verð á páskaeggjum, en þau kostuðu að meðaltali helmingi meira í Iceland en þar sem þau voru ódýrust.
Skammt undan Prís voru Bónus og Krónan, að meðaltali aðeins hársbreidd frá lægsta verði, og voru með mest úrval, eða 45-48 íslensk páskaegg. Alls fundust 39 páskaegg í Fjarðarkaupum, að meðaltali ríflega þremur prósentum frá lægsta verði.
Fríhöfnin selur þrjár týpur páskaeggja en það er Nóa páskaegg númer 4, sem kostaði 13 prósent meira í Fríhöfninni en í Prís, og tvo kassa með fjórum litlum páskaeggjum. Kassarnir fengust báðir ódýrari í Bónus en þar munaði 5 prósentum.
Bestu kaupin í stóru eggjunum
Páskaeggin eru misstór en er kílóverð eru borin saman sést að Freyju-páskaeggin eru dýrust. Nóa- eggin eru næstódýrust og Góu-eggin ódýrust.
„Bestu kaupin – ef planið er að torga kílógrammi af sætindum – er Risaeggið frá Bónus eða Góu páskaegg nr. 11. Í viðráðanlegri stærðum eru sérframleiddu verslanaeggin hagkvæmust. Bónus egg, Krónu egg og Okkar egg í Nettó kosta reyndar 17-20% meira á kílóið, en eru mun smærri,“ segir í fréttatilkynningu ASÍ.
Þar kemur ennfremur fram að mjólkurlaust Nóa-egg númer 4 kostar um 7 prósent meira en egg af svipaðri stærð frá Nóa sem inniheldur mjólkursúkkulaði og Freyju suðusúkkulaðiegg kostar 17 prósent meira, í kílóverði talið, en Freyju fjöregg, sem er af svipaðri stærð.
Á heimasíðu verðlagseftirlitsins er hægt að skoða kílóverð páskaeggja.
Fimm útlagar í Kjörbúðinni
Í Kjörbúðinni skýrist mikil hækkun á páskaeggjaverði af fimm páskaeggjum sem hafa hækkað um meira en helming frá því í fyrra;
Góu páskaegg og hraunegg nr. 1 hafa tvöfaldast í verði, úr rúmum 150kr í 295kr.
Freyju fjöregg nr. 6 hefur hækkað úr 2.399kr í 4.199kr. Það var í fyrra svipað dýrt og í Bónus en er nú 52 prósent dýrara.
Nóa ljóst páskaegg nr. 1 hefur hækkað úr 241kr upp yfir 370kr.
Án þessara fimm páskaeggja hefur meðalhækkun á verði páskaeggja í Kjörbúðinni verið 21 prósent.
Aðferðafræði ASÍ er eftirfarandi:
Borin voru saman meðalverð marsmánaðar 2024 við verð á páskaeggjum á laugardaginn síðastliðinn þegar meðaltöl voru reiknuð. Þegar breytingar á verði stakra páskaeggja voru reiknaðar var miðað við 25. mars 2024 annars vegar og laugardaginn 5. apríl 2025 hins vegar.
Komment