
Félagið Hagar, sem rekur Bónus, Hagkaup og fleiri verslanir, jók hagnað sinn verulega í fyrra. Hagnaðurinn fer hratt hækkandi. Á síðasta ársfjórðungi í fyrra einum og sér jókst hagnaður um 70%, úr 1,2 milljörðum króna í 3,1 milljarða króna fyrir skatta.
Hagnaður af starfsemi Haga jókst um 18,7% frá árinu 2023 til 2024, fyrir utan matsbreytingar sem auka hagnaðinn langt umfram það. Framlegð hækkaði um 23% í 41 milljarð króna. Í heildina var hagnaður Haga í fyrra eftir skatta 7 milljarðar króna, samkvæmt óendurskoðuðu uppgjöri.
Tvöföldun hagnaðarhlutfalls
Á alla helstu mælikvarða eru Hagar að styrkja stöðu sína af viðskiptum sínum við neytendur. Arðsemi eigin fjár fer úr 18% í rúm 24%, en var aðeins 10% árið 2020. Hagnaðarhlutfall er 3,9%, hærra en síðustu fimm ár og næstum tvöfalt meira en árið 2020. Þannig segir að undanfarin ár hafi verið „góð veltuaukning, drifin áfram af auknum umsvifum í rekstri og áhrifum verðbólgu“. Þá er framlegðarhlutfall að aukast verulega og fer úr 19,1% árið 2022 í tæp 23% í fyrra.
Slæmu fréttirnar eru þær að verðbólga hækkar vegna þess að verð á matvörum rís umfram almenna verðlagsþróun.
Viðskiptavinir borga meira en fá færri „stykki“
Í stjórnendauppgjöri Haga kemur fram að viðskiptavinir borga meira en kaupa hins vegar minna, þar sem „seldum stykkjum“ fækkar um 2,6%. Þannig greiddu viðskiptavinir Bónus 3,1% meira til verslananna, en þó er „lítilsháttar fækkun stykkja sem rata í hverja körfu“.
Í stjórnendakynningunni segir um Bónus að „rekstur ársins gekk vel, þar sem viðskiptavinum fjölgaði og afkoma styrktist umtalsvert frá fyrra ári – góður meðbyr inn í nýtt ár“.
Stjórnendur Haga lýsa mikilli ánægju með árangurinn. „Arðsemi eiginfjár er og hefur verið vel yfir markmiðum stjórnar og uppsafnaður hagnaður á hlut, án einskiptisáhrifa frá SMS, hefur aukist um 21% á síðustu 12 mánuðum og nánast þrefaldast á fjórum árum,“ segir í ávarpi Finns Oddssonar forstjóra.
Verð á hlutabréfum Haga, leiðrétt fyrir arðgreiðslu, hækkaði um 38% á árinu. Er það með allra mestri hækkun félaga í Kauphöllinni, en annar dagvörurisi, Festi, sem rekur meðal annars Krónuna, hefur hækkað mest.
Matur og drykkur hækka verðbólguna
Síðustu tólf mánuði hafa matur og drykkjarvara hækkað í verði um 4,9%, sem er langt umfram 2,5% verðbólgumarkmið Seðlabanka Íslands og vel umfram almennar verðlagshækkanir, sem eru 3,9%. Verðhækkanir og verðbólga hafa þau áhrif að vextir af húsnæðislánum haldast lengur hærri.
Árið 2023 efaðist Finnur Oddsson forstjóri um að matur væri raunverulega dýr á Íslandi, enda hefði verðbólga verið meiri annars staðar í Evrópu. Það hefur nú breyst og er verðbólga á evrusvæðinu 2,7%.
Hagar gera út á öfluga sjálfbærnistefnu.
„Öll fyrirtæki Haga hafa það markmið að veita framúrskarandi þjónustu selja gæða vörur á sanngjörnu verði og hafa um leið eins jákvæð áhrif á umhverfi og samfélag og mögulegt er,“ segir á vef félagsins.
Þá segir í stjórnendauppgjörinu: „Hagar leggja áherslu á sjálfbærni í allri sinni starfsemi og taka virkan þátt í samfélagslegum verkefnum. Starfsfólk og stjórnendur Haga trúa því að það sé ekkert „plan B“ og nálgumst við því öll verkefni með það fyrir augum að þau hafi jákvæð áhrif á umhverfi og samfélag.“
Hagar hafa lækkað losun koltvíoxíðs um 6,9% á tveimur árum og aukið hlutfall endurheimts úrgangs úr 55% í 94% frá 2019, auk þess sem ánægja starfsfólks er sögð hafa aukist.
Uppgjör ársins litast að hluta af kaupum á SMS í Færeyjum, sem rekur þar Bónusverslanir og veitingastaði.
Samherjafjölskyldan helsti einkaeigandi
Lífeyrissjóðir eiga ríflegan meirihluta í Högum, en stærsti einkafjárfestirinn er Kaldbakur, félag tengt Samherja, sem er í fjórðungseigu Þorsteins Más Baldvinssonar, forstjóra Samherja, en aðrir helstu eigendur eru fyrrverandi eiginkona Þorsteins og afkomendur Kristjáns Vilhelmssonar, annars stofnanda Samherja.
Hagar gera ráð fyrir að hagnaður fyrir skatta á yfirstandandi ári verði 16 til 16,5 milljarðar króna, eða allt að 1,8 milljörðum króna meiri en í fyrra.
Komment