
Hrunið á fjármálamörkuðum veldur því að íslensku lífeyrissjóðirnir hafi tapað um 750 milljörðum króna á yfirstandandi ári, samkvæmt grófu mati Gylfa Magnússonar hagfræðings.
Það er fyrir utan fall í dag.
„Hlutabréf á alþjóðamörkuðum, mælt með MSCI heimsvísitölunni, hafa nú lækkað um 12% frá áramótum í dölum og rúm 16% í krónum,“ skrifar Gylfi á Facebook. „Miðað við það má áætla að erlendar eignir lífeyrissjóðanna hafi minnkað um um það bil 550 milljarða á árinu. Íslensk hlutabréf hafa lækkað nokkurn veginn jafnmikið, um rúm 16%. Það hefur líklega þýtt tap fyrir lífeyrissjóðina upp á rúma 200 milljarða. Samtals hafa því sjóðirnir tapað á að giska um 750 milljörðum á hlutabréfamörkuðum á árinu - sem eru rúm 9% heildareigna. Nær öll lækkunin hefur orðið síðustu daga og skrifast á snargeggjaðar tollahugmyndir Bandaríkjaforseta.“
Úrvalsvísitalan OMXI15 hefur fallið um tæp 18% á árinu og 13% á einum mánuði. Hún er hins vegar á svipuðum stað og fyrir ári síðan. S&P vísitalan í Bandaríkjunum hefur fallið um 13,5% á árinu fyrir opnun markaða í dag. Hún er 2,5% lægri en fyrir ári.
Komment