
Í nýjum samanburði verðlagseftirliti ASÍ kemur fram að Rima Apótek er ódýrasta apótekið á landinu. Til skoðunar vru aðrar vörur en lyf eða þær vörur sem finna má frammi í versluninni.
Fram kemur í fréttatilkynningu frá ASÍ að Borgar apótek og Lyfjabúrið hafi hafnað þátttöku í verðlagseftirlitinu, en á grundvelli þeirra ganga sem þar var aflað eru þau annað og þriðja dýrasta apótek Íslands.
Þó nokkru getur munað á verði eftir því hvaða vörur eru skoðaðar að því er fram kemur í fréttatilkynningunni. Sem dæmi má nefna að Lyfjaval er að meðaltali með 15 prósent dýrara en ódýrasti kosturinn, en Better You-fæðubótarefni kosta að meðaltali 35 prósent meira í Lyfjaval en þar sem þau eru ódýrust, sem er iðulega í Rima Apóteki. Hins vegar voru New Nordic-vörur að jafnaði ódýrastar í Lyfjavali.
Borgar sig oft að bera saman verð
Ýmsar vörur sem seldar eru í apótekum má einnig finna í lágvöruverðsverslunum. Svo dæmi séu tekin:
- Nivea augnhreinsir (x-gentle, 125ml) kostaði 2.281kr í Borgar apóteki en 479kr í Bónus, næstum fimmfaldur munur. Varan kostaði einni krónu meira í Krónunni en Bónus.
- By My Beard skeggsjampó kostaði 1.990kr í ÍslandsApóteki en 349kr í Nettó, næstum sexfaldur munur.
- Gillette Cool Wave svitalyktareyðir kostaði tæpar 1.400kr í flestum apótekum, en aðeins 598kr í Bónus og 599kr í Krónunni.
- Carefree flexi innlegg kostuðu 286kr í Bónus, 287kr í Krónunni, 288kr í Nettó og 585kr í Farmasíu.
Í einhverjum tilfellum geta apótek verið ódýrari en lágvöruverðsverslanir, þó að munurinn í þá átt sé oftast minni. Hér eru nokkur dæmi:
- Hafkalktöflur, 60stk, kostuðu 2.790kr í Krónunni (og kosta enn) en voru (og eru) ódýrari í öllum apótekum sem skoðuð voru, fyrir utan Lyfjaval. Ódýrastar voru töflurnar í Lyfjaveri á 2.180kr en dýrastar í Lyfjavali á 2.855kr.
- Solaray Once Daily Active Man fjölvítamín kostaði 3.061kr í Lyfjaveri og hefur verið á því verði síðan í haust, ef ekki lengur. Á megni könnunartímabilsins kostaði vítamínstaukurinn 3.599kr í Krónunni, eða tæpum 18 pórsentum meira, og hefur síðan hækkað í 3.799kr, sem er 24 prósentum dýrara en í Lyfjaveri.
- Veet Sensitive háreyðingarkrem með aloe vera kostaði 2.339kr í Nettó en aðeins 1.560kr í Apóteki Vesturlands í Ólafsvík.
- Better You 5mg járnmunnúði kostar 2.021kr í Rima Apóteki en 2.399kr í Krónunni. Flestir aðrir BetterYou munnúðar eru hins vegar ódýrari í Krónunni.
Auglýsingar apóteka gjarnan villandi
Oft hvetja íslenskar verslanir til kaupa með afsláttum. Einhverjar reglur gilda um þá afslætti, til dæmis segir á vef Neytendastofu að útsala megi „ekki standa lengur en í sex vikur því þá er útsöluverðið orðið að venjulegu verði“.
Samkvæmt ASÍ fæst ekki betur séð en að í einhverjum tilfellum en að lengri tími hafi liðið frá verðlækkun í einhverjum apótekum. Til dæmis:
- New Nordic Apple Cider hlaup í vefverslun Lyfjavals var selt á 2.621kr til 3. febrúar. Svo var það selt á „-20%“, eða 2.097kr, til 4. apríl, eða á hálfa níundu viku. Samhliða því var bætt við „Nýtt“ merkingu á vöruna sem er þar enn.
- Siglufjarðarapótek hefur haft CeraVe Renewing fótakrem á 20% afslætti frá því í janúar síðastliðnum hið minnsta, en þá hóf verðlagseftirlitið skoðun á vefverslun apóteksins.
- Rima Apótek hefur selt Nutrilenk Active, 30 hylki, og NutriLenk Gel, 100ml, á 25% afslætti frá því í janúar síðastliðnum hið minnsta, en þá hóf verðlagseftirlitið skoðun á vefverslun apóteksins.
Dæmin eru fleiri.
Verðlag í Apóteki Vesturlands ekki alltaf samstíga
Verðlag á Apóteki Vesturlands virðist ekki hafa verið alfarið hið sama í útibúunum þremur í Borgarnesi, Akranesi og Ólafsvík, að því er fram kemur í frétttilkynningu ASÍ. Til að mynda var Better You D-Lúx 1000iu 15ml munnsprey selt á 1.493kr í Borgarnesi þann 13. mars en á 2.045kr í Ólafsvík. Better You Magnesium Relax flögur kostuðu 2.413kr í Ólafsvík en 1.530kr í Borgarnesi. Í aðra röndina kostaði Eylíf Smoother Skin & Hair 3.419kr í Ólafsvík en 4.850kr í Borgarnesi. Hafkraftur kostaði 2.650kr í Ólafsvík en 3.543kr í Borgarnesi.
Af 148 vörum sem bornar voru saman í Borgarnesi og Ólafsvík þann 13. mars voru 76 dýrari í Borgarnesi, 33 dýrari í Ólafsvík, og 39 á sama verði. Að meðaltali var verslunin í Borgarnesi 1,2 prósentum dýrari en í Ólafsvík.
Hvaða aðferðafræði notast ASÍ við?
Bornar voru saman vörur sem finna mátti í minnst níu apótekum. Aðeins var farið í apótek sem eru án aðgangsgjalds. Samanburðurinn fór fram frá miðjum febrúar til miðs mars.
Komment