
Viðskiptaráð leggst gegn breytingu veiðigjalds, sem myndi tvöfalda greidd gjöld fyrir útgerðir með því að reikna markaðsverð aflans frekar en milliverðlagningu.
Björn Brynjúlfur Björnsson, framkvæmdastjóri ráðsins, segir að ekki standist að áform ríkisstjórnarinnar byggi á auðlindarentu, vegna þess að auðlindarentan hafi þegar verið greidd þegar núverandi eigendur kvótans keyptu hann.
Þannig rann auðlindarentan, að mati Viðskiptaráðs, til kvótaeigenda sem seldur sig úr greininni. „Það þýðir að kaupendur kvótans hafa nú þegar verðmetið þá rentu sem hlýst af auðlindanýtingunni og greitt fyrir hana að fullu við kaup á kvóta á á frjálsum markaði. Sú auðlindarenta sem myndaðist við setningu aflamarkskerfisins varð þannig að bróðurparti eftir hjá þeim sem fengu kvóta úthlutað í upphafi og hafa síðan þá selt sig út úr kerfinu,“ segir Björn Brynjúlfur í umsögn Viðskiptaráðs við frumvarpið.
Reynist mat Viðskiptaráðs rétts var auðlindarenta í sjávarútvegi fyrir mistök greidd þeim útgerðarmönnum sem ákváðu að selja aflaheimildir. Í lögum um stjórn fiskveiða er hins vegar tekið fram að fiskveiðiauðlindin sé í eigu þjóðarinnar, en ekki þeirra útgerðarmanna sem fengu úthlutaðri heimild til að nýta hana. „Nytjastofnar á Íslandsmiðum eru sameign íslensku þjóðarinnar,“ segir í lögunum.
Andstaða Viðskiptaráðs byggir á því að forsendur stjórnvalda standist ekki, þar sem þegar hafi verið greidd auðlindarenta að fullu.
„Lykilrök fyrir þeirri miklu hækkun sem nú er áformuð er að hún sé liður í því að skattleggja þá umframrentu sem verður til í greininni í ljósi þess að hún byggi á auðlindanýtingu (svokölluð auðlindarenta, e. resource rent). Erfitt er að sjá hvernig þetta fær staðist, þar sem niðurstaða flestra greiningaraðila er að mikill meirihluti aflaheimilda sem úthlutað var við setningu kvótakerfisins hafi skipt um hendur,“ segir hann.
Komment