
Vélstjórinn og húmoristinn Anna Kristjánsdóttir hefur undanfarnar vikur dvalist á Íslandi en hún er með búsetu á Tenerife. Í pistli sem hún birtir á samfélagsmiðlum viðurkennir hún að hafa brotið íslensk lög í gær.
„Það var nóg að gera í gær annan síðasta daginn á Íslandi áður en ég held heim á leið. Eitthvað þurfti ég að fara í búðir og svo kom að því að ég þurfti að skreppa í vesturbæinn og ekki í fyrsta sinn í þessari Íslandsferð,“ skrifar Anna á Facebook.
„Þar sem ég ók inn á Miklubrautina af slaufunni við Sæbrautina/Reykjanesbrautina fór ég velta fyrir mér hvað ég væri búin að fara oft þessa leið á síðustu sautján dögum og er ég ók upp brekkuna frá Grensásvegi var ég ekkert að velta því fyrir mér af hverju sumir höfðu hægt á sér, færði mig yfir á miðakreinina sem var auð og hindranalaus og ók yfir gatnamótin við Háaleitisbraut í rólegheitum á grænu ljósi og ...FLASS,“ heldur hún áfram.
„Ég veit ekki enn hver refsingin verður, hvort ég verði dæmd til ævarandi vistar á Brimarhólmi eða Hólmsheiði, allavega hvorki í Tugthúsinu við Lækjartorg né Hegningarhúsinu við Skolavörðustíg eða hvort ég sleppi með vægari refsingu eins og þrjú ár upp á vatn og myglað brauð auatur á Litla-Hrauni og þrjátíu vandarhögg að auki. Kristrún frænka mín hlýtur samt að fá senda glæsilega mynd af mér með svip af einbeittum brotvilja og ég trúi ekki öðru en því að hún sendi mér myndina með hraði svo að ég geti látið innramma hana og setja upp á vegg sem staðfestingu nýhafins glæpaferils míns sem hálfgerður útlendingur á Íslandi,“ segir Anna en vonast nú samt til að komast heim til sín á morgun.
„Svo mörg voru þau orð,“ skrifar hún að lokum.

Komment