
Athafnamaður hefur verið dæmdur í fangelsi vegna ýmissa brota en málið var tekið fyrir í Héraðsdómi Reykjavíkur.
Maðurinn var ákærður fyrir að hafa fimmtudaginn 23. nóvember 2023, ruðst í heimildarleysi inn á heimili hjóna og ekki farið þaðan fyrr en heimilisfaðirinn ýtti ákærða út úr íbúðinni. Þá var hann einnig ákærður fyrir að hóta konunni á sama heimili og hann braust inn í með því að hrópa að henni: „Ef þú lætur ekki stólinn vera þá tek ég af þér hausinn“ en atvikin gerðust ekki á sama dag.
Sömuleiðis var maðurinn ákærður fyrir að hafa þrívegis keyrt undir áhrifum áfengis, fíkniefna og/eða slævandi lyfja. Þá háttsemi játaði maðurinn en neitaði sök að hafa hótað konunni og brotist inn í íbúðina.
Í dómnum er greint frá því að ljóst sé að miklar deilur hafi verið milli mannsins og fólksins í íbúðinni en öll bjuggu þau í sama fjölbýlishúsinu.
Hundakúkur og arabatónlist
Í dómnum segir konan að athafnamaðurinn hafi ógnað sér og hundunum hennar og í kjölfarið elt hana að útidyrahurð hennar þar sem hann hafi ausið yfir hana svívirðingum. Hann hafi í kjölfarið ruðst inn í íbúð hennar og yfirgaf athafnamaðurinn ekki íbúðina fyrr en eiginmaður konunnar ýtti manninum út. Þau hafi í kjölfarið hringt í lögregluna.
Eins og áður segir neitaði athafnamaðurinn sök en hann sagðist vissulega hafa rætt við konuna og sagt henni að hirða upp skít sem hundarnir hennar hafa skilið eftir. Kvartaði athafnamaðurinn og eiginkona hans einnig við lögreglu um að hundaeigendurnir væru sífellt að spila „arabatónlist“ án þess að það sé útskýrt í dómnum hvað það nákvæmlega þýði.
Annar brotaþoli sagði fyrir dómi að „síðustu fjögur ár eiginlega hafa verið hræðileg fyrir þau þar sem þau hafi þurft að búa við stöðugt umsáturseinelti og ógnanir heima fyrir. Kvaðst vitnið eiga 10 kærur hjá lögreglu fyrir utan þau tvö mál sem komin væru í ákæru. Einhverju sinni hafi verið borinn eldur upp að hurðinni inn í íbúð þeirra B, gangarnir hafi verið reykfylltir og gluggar skrúfaðir fastir þannig að ekki væri hægt að lofta út. Eiginkona ákærða hefði einhverju sinni ráðist á hurðina inn í íbúð vitnisins eftir barnaafmæli með hamri. Þetta væri búið að vera ótrúlega umfangsmikið. Ekki væri hægt að eiga nein samskipti við ákærða og eiginkonu hans nema í gegnum lögfræðinga.“
Á endanum var athafnamaðurinn sýknaður fyrir hótun en dæmdur fyrir húsbrot og umferðarlagabrotin.
Var hann dæmdur í þriggja mánaða skilorðsbundið fangelsi og sviptur ökurétti í fimm ár,
Komment