Fáir menn eru jafn umdeildir og Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, sem hefur mætt mikilli mótstöðu hjá alþjóðasamfélaginu vegna hegðunar sinnar í ýmsum málum. Einn þeirra sem hafa skoðun á forsetanum bandaríska og þeirri menningu sem ríkir í Bandaríkjunum er séra Bjarni Karlsson en hann birti áhugaverðan pistil um stöðuna þar í landi í morgun.
„Bandarískt samfélag hefur þá sérstöðu í vestrænni menningu að það sem þar á sér stað verkar á allt og alla. Nú gengur þetta máttuga samfélag í gegnum sársaukafullt umbreytingaferli,“ skrifar Bjarni
„Ekkert verkefni kemst í hálfkvist við það erfiði að breyta hugarfari sínu. Það sem sameinað hefur bandaríska menningu er trúin á einstaklinginn og krafan um að allir skuli njóta frelsis til að lifa sínu lífi. Það er falleg hugsun,“ segir en telur að eitthvað hafi valdið því að í stað hinnar litríku fjölmenningar hafi bandarískt samfélag, og vestræn menning að stóru leyti, þróast þannig að það er neyslan sem skilgreinir allt og alla.
Allt hefur verðmiða
„Hverfið sem þú býrð í hefur verðmiða, skólarnir sem börnin þín ganga í, verslanirnar þar sem þú sækir nauðsynjar, íþróttamiðstöðin þín, afþreyingin sem þú sækir – allt hefur verðmiða sem gerir það að verkum við kinkum kunnuglega kolli til ókunnugra því við erum í sama neysluklúbbi - svo lengi sem kortið virkar,“ heldur presturinn áfram.
Bjarni telur að innan neyslusvigans sem við tilheyrum sé kurteislega spjallað um afþreyingu og notkun á hinu og þessu en fólki segi ekki sögu sína og ræði ekki gildi sín og líf.
„Annað sem ég held að við þurfum að sjá til að skilja bandarískt samfélag og sjálf okkur um leið er það að innan neyslusvigan er þess krafist að fólk sýni ábyrgð. Líka það er falleg hugsun. En eitthvað hefur valdið því að það að vera ábyrg manneskja sem fyrr var í því fólgið að ástunda virðingu og samlíðun snýst nú um það eitt að láta ekkert lenda á öðrum,“ skrifar Bjarni.
Vilja ekki þurfa á öðrum að halda
„Eitt sinn var ábyrg manneskja persóna sem kunni þá list að vera vakandi vitni að umhverfi sínu. Einstaklingur sem virti fyrir sér menn og málefni, greindi samhengi, lét sér ekki á sama standa og leitaðist við að láta gott af sér leiða í orði og verki. Í bandarískri menningu hefur ábyrgðarhugtakið þrengst þannig að nú varðar það einstaklinginn einan og getur yfirfærst á kjarnafjölskyldu hans, maka og börn, en ekki lengra. Ef þú hefur það sem þú þarft til þess að standa undir þinni einkaneyslu ertu ábyrg persóna. Ef ekki ertu orðinn að óreiðumanni. M.ö.o. gildi þitt og siðferðisleg staða ræðst af getu þinni til að standa einn og þurfa ekki á öðrum að halda,“ telur Bjarni.
Hann segir einnig að þetta ískalda og níðþrönga ábyrgðarhugtak sé ríkur þáttur í kvíða hins vestræna manns og geri það að verkum að almenningur vinnur sér svo fúslega til húðar.
„Donald Trump er ekki fyrst og fremst einstaklingur. Hann er holdgervingur öfgafullrar vestrænnar einstaklingshyggju með sínu þrönga ábyrgðarhugtaki sem skilur okkur öll eftir óttaslegin, skammarfull og ein.“


Komment