Nú styttist óðum í áramótin og ákvað Mannlíf að heyra í nokkrum frábærum einstaklingum um uppáhaldsáramót þeirra, hvort viðkomandi ætli að strengja áramótaheit og margt fleira
Björgvin Franz Gíslason, leikari og leikstjóri, opnar sig um sín áramót í gegnum árin.
Hver eru þín eftirminnilegustu áramót?
Ég man eftir því sem peking öndin var kynnt til sögunnar. Ég var c.a. 10 ára gamall og Guð minn almáttugur; peking önd í þunnum pönnukökum með vorlauk, gúrkum og hoisin sósu!!!!! Frá þeim áramótum breyttist ég í gráðugan matarfíkil sem var ALLTAF að hafa áhyggjur af því að það væri ekki nóg af önd fyrir mig. Það er skemmst frá því að segja að ég hef ALLTAF haft peking önd á mínu heimili uppfrá því og það VERÐUR alltaf að vera nóg annars fæ ég kvíðakast!!!!
Lumar þú á góðri áramótasögu?
Eftir eitt áramótaskaupið (nánar tiltekið 1981) varð ég svo heillaður af öllum grínatriðunum sem mamma og pabbi léku í að ég fór í leikskólann í janúar og lék öll atriðin úr skaupinu stanslaust ÖLLUM STUNDUM einn út í horni og enginn náði sambandi við mig á þessu tímabili. Þá höfðu kennararnir samband við foreldra mína og ég var sendur til sálfræðings. Eftir eitt viðtal við mig sagði hann: “Ég veit hvað er að drengnum ykkar; hann hefur óbilandi áhuga á leiklist. Gangi honum vel” Kom reyndar í ljós á fullorðins aldri að það voru töluvert margar greiningar sem fóru framhjá blessuðum manninum en ég tek lyf við flestum þessum kvillum í dag.
Ætlar þú að strengja áramótaheit?
Halda áfram að sleppa tökunum og leyfa lífinu soldið að gerast (sem er mjög erfitt fyrir mig sem þarf svolítið að hafa tögl og haldir á öllu saman).
Hefur þú gert það áður?
Ég man það nú ekki en ef svo er þá hef ég örugglega gleymt því.
Hvað ætlar þú að gera um næstu áramót?
Stefni að því að vera með mínum bestu vinum fyrir norðan og vonandi tekst mér að plata yngri dótturina með.


Komment