
Fjölmiðlamaðurinn Björn Þorláksson greinir frá því á Facebook að hann hafi nýverið fengið ánægjuleg skilaboð frá sendiráði Íslands í Kaupmannahöfn eftir að veski hans týndist í ferðalagi í desember.
Björn segir veskið líklega hafa glatast um borð í flugvél milli Kastrup og Osló. Í því voru meðal annars ökuskírteini, greiðslukort og fleira. Í tölvupósti frá sendiráðinu kom fram að óþekktur velviljaður aðili hefði skilað veskinu á lögreglustöð, þaðan sem málið fór í farveg opinberrar þjónustu.
„Í sendiráðsbréfinu sagði að einhver velviljaður hefði haft fyrir að skila veskinu á lögreglustöð. Þaðan spann fjöldi góðhjartaðra einstaklinga og opinberra starfsmanna fallegan vef sem endar með því að græna veskið, sem ég keypti á Madeira til að styrkja fátæk börn á þeirri fögru eyju, verður nú sent mér með pósti,“ skrifar Björn.
Að sögn Björns virðist ekkert hafa verið tekið úr veskinu, þrátt fyrir að þar hafi verið reiðufé.
„Mér skilst meira að segja að einn þvældur íslenskur fimmhundruðkall í veskinu hafi ekki verið snertur!“ bætir hann við.
Í færslunni veltir Björn einnig fyrir sér samfélagslegu samhengi málsins og mikilvægi þess að gleyma ekki mannlegri gæsku í umrótstímum.
„Í þeirri viðsjá sem nú skekur heiminn og ýmis illvirki í fréttum, hættir sumum okkar í byrjun þessa fallega árs til að gleyma að fólk er almennt gott og ábyrgt,“ skrifar hann og heldur áfram:
„Og annað: Opinber þjónusta hjálpar borgurum að finna sjálfa sig og peningaveskin í kjölfar ósýnilegra góðverka almennings þegar allt er eins og það á að vera.“
Björn segirst ætla að sér að draga lærdóm af þessari sögu.
„Og þennan morgun líður mér eins og allt sé eins og það á á að vera. Ég ætla að draga lærdóm af þessari fallegu samfélagssögu og finnst full ástæða til að deila henni áfram...“

Komment