
Hinn 5. desember 2025 auglýsti dómsmálaráðuneytið í Lögbirtingablaði laus til umsóknar tvö embætti héraðsdómara en greint er frá þessu í tilkynningu frá yfirvöldum.
Annars vegar er um að ræða skipun í embætti dómara sem mun hafa starfsstöð við Héraðsdóm Reykjavíkur en sinna störfum við alla héraðsdómstólana eftir ákvörðun dómstólasýslunnar. Hins vegar setningu í embætti dómara með fyrsta starfsvettvang við Héraðsdóm Reykjavíkur meðan á leyfi skipaðs dómara stendur. Umsóknarfrestur rann út þann 22. desember síðastliðinn.
Umsækjendur um bæði embættin eru:
- Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir lögmaður,
- Marta María Friðriksdóttir aðstoðarmaður dómara við Landsrétt,
- Sindri M. Stephensen dósent og settur héraðsdómari,
- Sverrir Sigurjónsson lögmaður.
Umsækjendur eingöngu um skipun í embætti dómara með fyrsta starfsvettvang við Héraðsdóm Reykjavíkur eru:
- Þorbjörg I. Jónsdóttir lögmaður.
Umsækjendur eingöngu um setningu í embætti dómara með fyrsta starfsvettvang við Héraðsdóm Reykjavíkur eru:
- Brynjar Níelsson lögfræðingur.
Umsóknir verða afhentar dómnefnd um hæfni umsækjenda um embætti dómara til meðferðar á næstunni.
Brynjar hefur nýlokið skipunartíma í embætti dómara með starfsvettvang við Héraðsdóm Reykjavíkur en hann gegndi þeirri stöðu frá 14. febrúar til 31. desember 2025.

Komment