Þórunn Sveinbjarnardóttir, forseti Alþingis, og Hanna Katrín Friðriksson atvinnumálaráðherra hafa báðar lýst yfir efasemdum yfir því að útvistarfyrirtækið Patagonia hafi hvatt fólk til að senda inn umsögn um lagareldi á Íslandi.
„Ég er ekki viss um að þetta sé fordæmalaust, við höfum áður hér á Alþingi fengið umsagnir við lagafrumvörp erlendis frá,“ sagði Þórunn við RÚV um málið. „Ég er auðvitað hugsi yfir þessu og skil vel að atvinnuvegaráðherra hafi af þessu áhyggjur,“ hélt hún áfram.
„Við skulum ekki vera svo bláeyg að halda að erlendir aðilar hafi ekki áhuga á okkur eða reyni ekki að hafa áhrif hér á landi. Og það er okkar hlutverk, sem erum í stjórnmálum, að sjá við þeim - það má kannski orða það þannig.“
Bubbi vægast sagt ósáttur
Hafa orð Hönnu og Þórunnar farið fyrir brjóst á sumum og er tónlistarmaðurinn Bubbi Morthens einn af þeim.
„Ertu ekki að grínast?“ spyr Bubbi á samfélagmiðlum. „Forseti alþingis hefur áhyggjur yfir því að bandaríska fyrirtækið Patagonia varar fólk við frumvarpi Viðreisnar og hvetur fólk til að senda inn athugasemdir við það. Og hún lætur í veðri vaka að þetta sé alveg gasalega skrítið: STÓRFYRIRTÆKI REYNIR AÐ HAFA ÁHRIF. Eigið þið annan, frú forseti alþingis og atvinnumálaráðherra?“ spyr tónlistarmaðurinn.
„Norðmenn eiga laxeldisfyrirtækin sem eru skráð í erlendri kauphöll en hún hefur ekki áhyggjur yfir því að milljarðafyrirtæki Norðmanna hafi yfirtekið firði Íslands undir laxeldi sitt í opnum kvíum. Og með milljarðaþung orð sín og áhrif inní stjórnsýsluna komast þeir upp með sóðaskap sinn og endalaust tap á rekstrinum sem Viðreisn virðist ætla að bjarga þeim með,“ segir Bubbi.
„Viðreisn er gengin erlendum öflum á hönd en talar um að erlend öfl séu að reyna að hafa áhrif hér á landi. Í hvaða veröld lifir forseti alþingis og ráðherra Viðreisnar? Náttúra Íslands hefur alltaf þurft að gefa eftir í gegnum árin. Ef við værum að græða á þessu, sem við erum alls ekki að gera, væri möguleiki að skilja eitthvað í þessu ömurlega frumvarpi sem virðist hafa verið samið með laxeldismönnum. Ég hvet alla hvar sem er á landinu öllu: eina leið okkar er að kjósa ekki Viðreisn og beita okkar þunga gegn þessum flokki. Ef einhver vill tala um erlend stórfyrirtæki þá er það Viðreisn sem hefur gengið þeim á hönd,“ skrifar Bubbi að lokum.


Komment