Nú styttist óðum í áramótin og ákvað Mannlíf að heyra í nokkrum frábærum einstaklingum um uppáhaldsáramót þeirra, hvort viðkomandi ætli að strengja áramótaheit og margt fleira.
Rakel Gunnarsdóttir, verkefnastjóri hjá Háskólanum í Reykjavík, rifjar meðal annars upp djammáramót sín fyrir lesendur og að hún hætti að drekka kók.
Hver eru þín eftirminnilegustu áramót?
Erfitt að segja, engin ein sem standa beint upp úr en ætli eftirminnilegustu áramótin séu ekki frá því ég var yngri á mínum djammárum. Þá snerust áramótin um að finna góð partý og djamma sem lengst og eru nokkur góð áramótapartý sem ég man eftir.
Lumar þú á góðri áramótasögu?
Ég man eftir að mamma setti stundum stórt band á gólfið heima og við áttum að „hoppa inn í nýtt ár“ á miðnætti. Mér fannst þetta hrikalega asnalegt en myndi klárlega gera eins núna fyrir mín börn.
Ætlar þú að strengja áramótaheit?
Alltaf þegar nýtt ár nálgast eru allskonar stórtækar hugmyndir í hausnum á mér en ég er síðan ekki nógu öguð í að koma því á blað og standa við það. En við fluttum í nýtt hús á þessu ári og langar mig halda áfram að koma okkur vel fyrir þar. Svo er það allt þetta klassíska, huga betur að heilsunni og skapa meiri minningar með fjölskyldunni.
Hefur þú gert það áður?
Já og nei - það var ekki eiginlegt áramótaheiti heldur heilsuáskorun þegar ég vann á Hilton. Þá setti ég mér markmið að drekka ekki kók í 3 mánuði, þetta var í byrjun árs 2018 og ég hef ekki drukkið kók síðan.
Hvað ætlar þú að gera um áramótin?
Við verðum heima hjá okkur þessi áramótin og er ég er spennt að fagna nýju ári í nýja húsinu okkar. Við fáum tengdafjölskyldu mína til okkar og munum elda góðan mat í sameiningu ég og maðurinn minn. Það eru bara klassík áramót, skaup og stjörnuljós, sprengjum kannski eina tertu. Nýársdagur fer svo bara í leti og kósýheit. Það væri óskandi að fá smá snjókomu og geta farið út á sleða með börnin.


Komment