Fatahönnuðurinn Haraldur Davíð Björnsson er heilinn á bakvið fatamerkið Coppermine sem hefur vakið athygli á undanförnum mánuðum hér á landi. Þrátt fyrir ungan aldur er ljóst að Haraldur er með skýra sín á það sem hann vill gera í tískuheiminum.
Mannlíf ræddi við hönnuðinn um upprunann, nútímann og framtíðina.
„Áhuginn byrjaði hægt í Hagaskóla, klassískt. Maður fer að pæla í útliti, passa föt saman og prófa eitthvað nýtt,“ segir Haraldur um upphafið en hann byrjaði í Hagaskóla í 7. bekk. Fram að því hafði hann búið í Svíþjóð og segir Haraldur að Svíþjóð hafi mótað hann mikið. „Í lok 9. bekkjar var ég orðinn mjög djúpt inni í þessu. Ég byrjaði í sneakers og safnaði mér í nokkra Jordans. Stærstu kaupin á þeim tíma voru Jordan 1 Shadow sem kostuðu fáránlega mikið miðað við aldur,“ segir Haraldur.
„Svo færðist áherslan yfir í fatnað og heildarlúkk. Það sem kveikti alvöru hugmyndina var að félagi minn úr árgangi í Hagaskóla byrjaði sitt eigið merki. Ég horfði á hann selja hundruð peysa um allt land, úr sínu eigin merki, sinni eigin hönnun, á meðan við vorum bara krakkar í 10. bekk. Þá hugsaði ég í fyrsta skipti, bíddu, getur hver sem er gert fatamerki og látið það virka ef hann leggur vinnu í það? Ég byrjaði þá að fikta í grafík. Ég hannaði eina peysu fyrir þann sem ég sé enn um allt fyrir í dag, 444 hunda peysan. Þetta var í fyrsta skipti sem ég fann að hönnun gat lifað sitt eigið líf á fólki úti á götu.“
Fór út fyrir þægindarammann
„Þegar ég byrjaði í MH var stemningin allt öðruvísi en ég var vanur,“ heldur Haraldur áfram. „Það var minna af því að fólk væri að fylgjast með þér eða dæma. Það var léttara að fara út fyrir þægindarammann og prófa hluti, af því það var ekkert eitt trend sem allir voru að elta.“
Hann segist hafa verið með mjög skýrar hugmyndir af flíkum sem hann vildi sjá.
„Functional, góðar sniðlausnir, ákveðin smáatriði. Vandamálið var að þær flíkur voru ekki til, allavega ekki eins og ég sá þær fyrir mér. Ég áttaði mig á því að ef ég vildi þetta í alvöru þá þyrfti ég bara að búa það til sjálfur,“ og segist Haraldur hafa byrjað smátt og hafa lært mikið á því. Hann hafi þurft að klúðra hlutum og laga þá svo.
En hvað er Coppermine?
„Coppermine er heimur sem ég hef verið að byggja í hausnum á mér í 4 til 5 ár. Þetta er saga, stemning og sjónarhorn sem ég reyni að setja í flíkurnar, myndefnið og markaðssetninguna. Þetta er líka mín sýn á það hvernig íslensk tískumenning getur litið út þegar hún er keyrð af konsepti og identity, ekki bara vöru,“ segir Vesturbæingurinn.
Góður hópur sem hjálpar til
Haraldur segist þó ekki hafa gert allt einn og er þakklátur fyrir mikinn stuðning sem hann hefur í kringum sig.
Benedikt Andrason hjá CHILD, Arngrímur Orri, Ólafur Kári, Flysouth-strákarnir; Elvar, Robert Winther, Gunnar Dagur, Gulli Briem, Erlingur Freyr, Konráð Bjartur og Kári hafa allir staðið þétt við bak Haraldar í ferlinu og deila þeir vinnustofu saman.
„Stúdíóið okkar á Hafnarbraut 21 varð líka mjög sérstakur staður,“ segir Haraldur. „Þetta varð svona „culture hotspot“ þar sem tónlistarmenn, videógæjar, hönnuðir og creatives komu og fóru. Það var alltaf einhver að vinna í einhverju, alltaf einhver að kynnast einhverjum nýjum, og þetta space ýtti manni áfram. Í raun var reglan bara að mæta upp í stúdíó, sama hvað var í gangi. Það var þannig í langan tíma. Þetta consistency skiptir miklu þegar þú ert að reyna að byggja eitthvað upp frá grunni,“ en Coppmine-teymið í dag er lítið og þétt.
„Það er ég, Ólafur Kári, Gulli og Dabbi sem er nýlega búinn að joina. Ég elska þetta team. Við erum með góða efnafræði, vinnum vel saman, og erum með ólíka styrkleika og veikleika sem complementa hvorn annan. Það mikilvægasta er samt að við trúum allir á þennan draum. Við vitum að þetta getur orðið eitthvað stórt, og eitthvað sem mun hafa áhrif á okkur alla.“
Hver er staðan á tískunni á Íslandi?
„Ég held að tískan á Íslandi sé að stækka mjög hratt. Fleiri eru að taka þetta alvarlega, fleiri eru að hanna, fleiri eru að kaupa íslensk merki, og það er meira tempo í menningunni í kringum þetta en áður,“ en Haraldur telur að margt sé fast í „survival mode“ eins og hann kallar það. Það sé heldur ekki endilega hönnuðunum að kenna.
„Ísland er svo lítið að flest merki eru nánast þvinguð til að vera með basic vörur sem seljast á breiðum hóp, af því annars lifir þetta einfaldlega ekki af,“ segir Haraldur. „Það er ekki nóg af fólki til að halda uppi stöðugum sölutölum á mjög niche flíkum allt árið. Þannig að jafnvel þó fólk vilji gera brjálaða hluti, þá þarf það líka að selja klassísku hlutina til að fjármagna hitt,“ og segist hann hafa fundið fyrir þessu sjálfur.
Hraður vöxtur
„Coppermine hefur vaxið ótrúlega mikið á þessu ári, við erum nánast að fimmfalda söluna og pöntunarfjöldann. En stór hluti af því hefur verið meira byggður á restockum og að styrkja grunninn, frekar en að vera endalaust að henda út nýjum flíkum. Stundum er það bara leikurinn hér heima. Þú þarft að byggja upp stöðugan grunn til að geta tekið stærri kreatíf skref.“
Haraldur viðurkennir þó að fylgjast ekki mikið með öðrum merkjum því að hann reyni að halda sér á sinni braut og finna sína eigin leið.
„Ég vil brjóta nýja strauma í því hvað íslenskt fatamerki getur gert, bæði í konsepti, framsetningu, gæðum og heimi í kringum merkið. Ég held að þetta sé að fara í rétta átt og að þessi menning verði bara sterkari næstu ár.“
Opnuðu búð í Nóatúni
Coppermine hefur, eins og áður segir, verið að stækka og var tekin sú ákvörðun að hafa svokallaða pop-up verslun í desember, sem er staðsett í Nóatúni. Haraldur á sér þó stærri draum.
„Þetta er fyrsta alvöru skrefið mitt í að hafa Coppermine í physical formi þar sem fólk getur komið, séð vörurnar, mátað og hitt okkur,“ segir Haraldur. „Þetta er líka praktískt fyrir pickups, skipti og þjónustu, sérstaklega í jólaálagi. En þetta er líka stærri draumur. Ég myndi elska að þetta yrði meira en pop-up. Ég vil eiga búð sem getur staðið á eigin fótum, með sínum karakter, og verið staður sem byggir upp menningu í kringum merkið. Hvort þetta pop-up verði byrjunin á því veit maður ekki, en það er klárlega draumurinn.“
Hvernig verða næstu fimm árin?
„Ég hef í alvöru ekki neina fullkomlega skýra mynd af næstu fimm árum,“ segir hönnuðurinn káti. „Ég reyni að halda fókus á því sem er að gerast núna, af því það er svo mikið í gangi og svo margt nýtt í einu,“ og segist ennþá vera að læra inn á viðskiptahlutann af bransanum. Hann upplifi ennþá stundum að hann viti ekki hvað er hann að gera en hann tekur einn dag í einu og reynir að læra.
„En það sem ég veit er þetta: Ég trúi á Coppermine. Ég vil segja þetta eins hógværlega og ég get, en ég trúi því í alvöru að Coppermine geti orðið eitt af áhrifamestu íslensku merkjunum. Ég vil byggja eitthvað sem Ísland getur verið stolt af. Að Coppermine verði nafn sem fólk tengir við alvöru sköpun, gæði og menningu,“ og segist Haraldur ekki sjá nein takmörk á því hvað Coppermine getur orðið í framtíðinni.
„Coppermine er byggt á mjög skýrri og original fagurfræði sem ég hef verið að móta í hausnum á mér í mörg ár. Ég reyni að byggja þetta út frá heimi og identity, ekki út frá trendum. Ég veit grunninn, ég veit stemninguna, og ég finn að þetta er eitthvað sem er ekki alveg til annars staðar á sama hátt. Það gerir mig bjartsýnan. Ég reyni líka bara að taka þeim tækifærum sem ég fæ. Ég gerði runway á þessu ári og það var galið. Það var rosaleg upplifun og ég hugsaði strax, þetta er eitthvað sem ég get séð mig gera aftur, og gera stærra. Að byggja Coppermine upp sem alvöru seasonal merki, með sýningum, köflum og sterkri heildarsýn,“ og segist Haraldur horfa til merkja eins og Ralph Lauren, sérstaklega hvernig merkinu tekst að byggja upp heilan heim og vera með margar fatalínur í einu. Svo megi heldur ekki gleyma sögu þess.
„Ég veit að ég kann ekki allt þetta system í dag en ég veit að ég mun læra það, og ég ætla að reyna að teygja mig eins langt og ég mögulega get,“ segir Haraldur að lokum.


Komment