Rapparinn Emmsjé Gauti hefur brugðist við gagnrýni sem Jónas Sen skrifaði á Vísi um Jülevenner-tónleikana sem hann hefur haldið árlega undanfarin ár við miklar vinsældir.
Óhætt er að segja að Jónas hafi ekki notið sín á tónleikunum og kallaði þá meðal annars „helvíti á jörðu,“ og gaf tónleikunum eina stjörnu af fimm mögulegum.
„Ef markmiðið var því að sjúga hverja einustu örðu af sál, heilagleika og menningu úr jólahátíðinni, þá tókst Gauta það ekki bara; hann fullkomnaði verkið,“ skrifaði Jónas í dómi sínum.
„Lægsti punktur kvöldsins var án efa fjölbragðaglíma Jesú og jólasveinsins, atriði sem var ekki bara hallærislegt heldur hreint og beint guðlast. Að horfa á leikara í gervi frelsarans, klæddan í druslulegan slopp sem virtist stolinn af smitsjúkdómadeild Landspítalans, veltast um sviðið í þágu neysluhyggjunnar var ömurleg sjón. „Bardaginn“ minnti helst á tvo ölvaða frændur að slást um síðustu sósuskeiðina í fermingarveislu, en undirtónninn var alvarlegri: Hér var heilagleikinn seldur fyrir ódýr hlátrasköll. Þetta var menningarlegt sjálfsmorð og óneitanlega móðgun við alla þá sem bera minnstu virðingu fyrir boðskap jólanna,“ hélt Jónas svo áfram.
Gauti hefur greinilega haft mikinn húmor fyrir þessum dómi því að hann er strax búinn að tilkynna forsölu fyrir Jülevenner-tónleikana á næsta ári og ber þeir yfirskriftina Helvíti á jörð.


Komment