
Lögregla hafði í ýmsu að snúast í miðborginni og nágrenni samkvæmt dagbók embættisins frá því í gærkvöldi og í nótt. Meðal verkefna var að fjarlægja öskudraugfulla konu af veitingastað eftir að hún sinnti ekki fyrirmælum lögreglu og neitaði að gefa upp nafn sitt.
Tilkynnt var um þjófnað í skartgripaverslun og er málið nú til rannsóknar. Þá var einnig óskað aðstoðar vegna manns sem vildi ekki sætta sig við að greiða þyrfti fyrir notkun almenningssamgangna. Málið var afgreitt á vettvangi.
Lögreglu barst tilkynning um líkamsárás þar sem úðavopni var beitt. Árásarþoli var fluttur á slysadeild til aðhlynningar og rannsókn stendur yfir.
Einnig var brotist inn á veitingastað þar sem ýmsum munum var stolið. Lögreglu tókst fljótlega að hafa uppi á innbrotsþjófunum, handtaka þá og skila þýfinu til eiganda. Mennirnir voru vistaðir í fangaklefa í þágu rannsóknar.
Nokkur umferðarlagabrot komu einnig til kasta lögreglu. Maður var handtekinn grunaður um akstur undir áhrifum fíknilyfja og akstur sviptur ökurétti, annar fyrir ölvunarakstur og sá þriðji grunaður um fíkniefnaakstur auk vörslu fíkniefna. Fylgt var hefðbundnu ferli í öllum tilvikum.
Þá voru tveir menn kærðir fyrir akstur án tilskilinna réttinda, þar af einn sviptur ökurétti. Loks voru skráningarmerki fjarlægð af fjölda bifreiða, ýmist vegna þess að þær höfðu ekki verið færðar til aðalskoðunar eða vegna vangoldinnar vátryggingar.

Komment