Nú styttist óðum í áramótin og ákvað Mannlíf að heyra í nokkrum frábærum einstaklingum um uppáhaldsáramót þeirra, hvort viðkomandi ætli að strengja áramótaheit og margt fleira.
Hafsteinn Ormar Hannesson, framkvæmdastjóri Heimilisþrifa, er einn mesti áramótamaður Íslands og því var nauðsynlegt að fá hans sögur af áramótum.
Hver eru þín eftirminnilegustu áramót?
Gamlársdagur hefur frá því að ég var barn alltaf verið minn uppáhalds dagur ársins þannig að öll áramót eru mér mjög eftirminnileg. En er ég rifja upp þessi 36 áramót sem ég hef lifað þá eru einungis skemmtilegar minningar sem koma upp. En ætli þau eftirminnilegustu séu ekki þegar ég var um 10 ára gamall og við strákarnir í Fylki fengum það verkefni að tendra Fylkisbrennuna. Þá var kyndilganga frá Fylkisheimilinu að Brennunni, sem var þó ekki löng leið (um 200-300m) en fyrir 10 ára gamlan dreng haldandi á brennandi kyndli var það ákveðin þrautarganga.
Þessi hefð hefur því miður verið aflögð og í staðinn fyrir að krakkar í yngri flokkum fá að tendra brennuna þá er í staðinn fengið í verkið vel dúðaður starfsmaður Reykjavíkurborgar sem kveikir í henni með gasbrennara, mikil rómantík í því. Mér hefur alltaf þótt mjög vænt um þessa hefð að halda áramótabrennur og hef mætt á allar Fylkisbrennur frá því að ég man eftir. Brennurnar er frábær vettvangur fyrir íbúa í hverfinu til að hittast, syngja og jafnvel fá sér einn sjúss eða tvo.
Ætlar þú að strengja áramótaheit?
Ég hef aldrei komist á lagið með að strengja áramótaheit og hugsa að ég muni ekki gera það þessi áramót heldur. Ef það er eitthvað sem þarf að gera, breyta eða bæta í mínu lífi þá geri ég það án þess að bíða til áramóta.
Hvað ætlar þú að gera um áramótin?
Ég þarf ekki plan fyrir áramótin, áramótin eru ritúal. Ritúal sem ég hef haldið frá því að ég komst á fullorðinsár.
En dagurinn byrjar ekki ósvipað öðrum dögum; á sturtu. Svo er hafinn undirbúningur á veitingum sem verða á boðstólnum þegar horft er á Kryddsíldina en það er alltaf opið hús fyrir gesti og gangandi á meðan Kryddsíldin stendur yfir og oft mikill gestagangur á þessum tíma.
Áður en útsending hefst og ef tími gefst þá fer ég á YouTube og horfi á gamlar Kryddsíldir. Þegar síldinni er lokið og formennirnir eru búnir að halda sína tölu og skála þá er oftast kominn mikill spenningur í mig. Spenningur sem ég bíð eftir á hverju ári að vaxa upp úr en hingað til hefur það ekki gerst. Það er eitthvað við þennan dag sem ég á erfitt með að útskýra sem heillar mig meira en allir aðrir dagar ársins. Það gætu verið flugeldarnir en það gæti líka verið sú kosmíska tilfinning að vera búin að ferðast hring í kringum sólina á síðastliðnum 365 dögum. Hvort það er veit ég ekki.
Síldargestir eru svo kvaddir með flugeldasýningu og halda heim.
Undir öllum eðlilega kringumstæðum þá ætti ég að vera að undirbúa matinn og gera allt sem honum fylgir en ég hef búið svo vel síðastliðin 11 ár að tengdapabbi er kokkur sem sér algerlega um matinn þannig að ég get eytt allri minni orku og tíma í að undirbúa mig bæði líkamlega og andlega fyrir kvöldið. Tengdapabbi er ekkert sérstaklega hrifinn af því að fá aðstoð í eldhúsinu en mér finnst gott að spyrja hann út í hitt og þetta varðandi matinn, hvað hann er að gera núna og á hvaða hitastigi á þetta að vera os.frv. En ég geri það bara til að láta honum líða eins og ég sé að gera eitthvað gagn sem ég er svo sannarlega ekki að gera. Ég hef fengið beiðnir um að vaska upp samhliða eldamennskunni sem ég svara nú oftast játandi en á gamlárskvöld kemur það ekki til greina. Það er ekki hluti af ritúalinu.
Á meðan við borðum matinn þá get ég ekki hugsað um annað en brennuna og að koma mér þangað sem fyrst að sjá vel dúðaða öryggisfulltrúa Reykjavíkurborgar tendra brennuna. Ég er oftast mjög fljótur að borða og er varla búinn að kyngja síðasta munn bitanum þegar ég vill fara að koma mér út. Þar sem ég bý í Hafnarfirði í dag þá þarf að leggja af stað tímanlega. Við erum oftast mætt á brennuna rétt áður að hún er tendruð og þar hittir maður mikið af fólki sem maður hittir öllu jafna ekki nema einungis á þessum vettvangi. Það er það ég elska mest við þessa brennu. Svo eftir að maður hefur heilsað þessum helstu þá er byrjað að leita að feðgum (þið vitið hverjir þið eruð) sem halda alltaf á koníakspela og gefa öllum sem þiggja staup eða tvö sem ylja manni. Eftir flugeldasýninguna er haldið heim í dessert og sett sig í stellingar fyrir áramótaskaupið. Áramótaskaupin eru jafn góð og þau eru mörg, sum slá í gegn og önnur ekki. En ég hef alltaf gaman af þeim og sérstaklega lögunum í lokin. Þegar lagið klárast þá er spenningurinn kominn í hámark.
Þá er farið að klæða sig, setja á sig öryggisgleraugu og ná í sprengjurnar. Árinu er svo lokið með því að sprengja flugelda, skála með sínum heittelskuðu og fagna nýju ári og öðrum hring í kringum sólina.


Komment