
Illugi Jökulsson fjölmiðlamaður er meðal annars þekktur fyrir örsögur sínar, sem oftar en ekki gerast í heita pottinum. Í þeirri nýjustu sem hann birti á Facebook í gærkvöldi segir hann frá fallegri fjölskyldu sem hann sá í pottinum í Vesturbæjarlauginni.
„Ég var næstum farinn að dotta í stóra pottinum í Vesturbæjarlauginni áðan þegar þangað komu ungir foreldrar með barnið sitt rétt tæplega eins árs og þetta var kátt og glúrið barn með ullarhúfu með hvolpaeyrum,“ segir Ilugi og heldur áfram „og það var gaman að sjá hvað þau umgengust barnið með mikilli virðingu og auðmýkt og stolti og barnið var líka ánægt með foreldrana og klappaði fyrir mömmu sinni þegar hún teygði sig eftir plastönd fyrir það“.
Illugi segir karlmanninn einnig hafa horft „auðmjúkur og stoltur“ á konu sína, „og hún brosti til hans svo sæl yfir því að eiga svona ágætan mann og það munaði ekki nema því sem munaði að ég segði þeim að þau væru fallegasta fjölskylda sem ég hefði séð lengi en svo gerði ég það náttúrlega ekki. Þau hefðu haldið að ég væri einhver pervert.“
Hin snotra örsaga Illugi hefur vakið mikla athygli en hátt í þúsund manns hefur líkað við hana á Facebook og um þrjátíu hafa tjáð sig um hana, flestir ef ekki allir til að dásama fegurðina í henni.

Komment