Lögregla hafði í ýmsu að snúast í nótt og í gærkvöldi, meðal annars vegna fíkniefnamála, aksturs án ökuréttar og eignaspjalla.
Alls voru þrír menn handteknir grunaðir um fíkniefnaakstur. Í tveimur tilvikum var um hefðbundið ferli að ræða, en í einu málinu fundust einnig fíkniefni í vörslu mannsins. Þá var annar maður handtekinn grunaður um eignaspjöll og vörslu fíkniefna, en því máli var lokið með vettvangsskýrslu.
Tveir menn voru kærðir í sitt hvoru málinu fyrir að aka bifreiðum þrátt fyrir að vera sviptir ökurétti. Einnig var maður kærður sérstaklega fyrir akstur án ökuréttar.
Lögregla var kölluð á bókasafn þar sem sofandi konu var vísað út af svæðinu.
Tilkynnt var um þjófnað í matvöruverslun og er málið til meðferðar hjá lögreglu. Þá barst tilkynning um rúðubrot í fjölbýlishúsi og er það mál í rannsókn.
Að auki kom upp eldsvoði í bílskúr. Slökkviliðið slökkti eldinn og lögregla rannsakaði vettvang, en ekki liggja fyrir frekari upplýsingar um eldsupptök að svo stöddu.


Komment