
Vísitala neysluverðs hækkaði um 0,32% í júlí, sem veldur samsvarandi hækkun á höfuðstól verðtryggðra fasteignalána. Þetta þýðir að 50 milljóna króna fasteignalán hækkar um 160 þúsund krónur, fyrir utan afborgun og vexti.
Það sem helst heldur verðbólgunni uppi er 5% hækkun á matvælaverði og 7% hækkun á húsnæðiskostnaði.
Verðbólgan, sem er 12 mánaða meðaltal sömu vísitölu, mælist nú 4%. Það er svipað og síðustu fimm mánuði.
Litlar líkur virðast á mikilli lækkun á vöxtum húsnæðislána á næstunni. Síðustu misseri hafa verðtryggðir vextir hækkað mikið og óverðtryggðir vextir haldið sjó. Algengustu verðtryggðu vextirnir eru 4% til 5%, sem að viðbættri verðbólgu jafngildir 8% til 9%.
Það er á svipuðum stað og óverðtryggðir vextir. Þannig tilkynnti bankinn Kvika innreið sína á fasteignalánamarkað í maí, „á bestu kjörum sem bjóðast á breytilegum óverðtryggðum vöxtum“. Vextirnir voru þá 8,5%. Nú hafa þeir verið hækkaðir í 8,9%.
„Við teljum ekki horfur á að verðbólga þokist nær verðbólgumarkmiði á árinu og spáum 4,2% verðbólgu í lok árs,“ sagði í spá greiningar Landsbankans fyrir útgáfu nýjustu talna um þróun vísitölu neysluverðs.
Næsta vaxtaákvörðun Seðlabankans er 20. ágúst.
Komment