
Eftir að hafa greint frá því að hann hefði nýverið legið á sjúkrahúsi með lungnabólgu, fór tónlistarmaðurinn Ray J nánar yfir heilsufar sitt og sagðist ekki telja sig verða á lífi árið 2027.
„2027 er klárlega búið spil fyrir mig,“ sagði Ray J í beinu streymi á Instagram 27. janúar og benti á hjarta sitt. „Þetta er svart. Þetta er, bara búið.“
Rapparinn, sem er hvað þekktastur fyrir að hafa verið í kynlífsmyndbandinu sem kom Kim Kardashian á kortið á sínum tíma, rifjaði einnig upp hversu alvarlegt ástand hans varð og sagðist hafa verið nærri dauða á sjúkrahúsinu.
„Ég klúðraði þessu,“ sagði Ray J. „Ég held að ég hafi haldið að ég væri sterkari. Ég hélt að ég væri stór og gæti höndlað allt áfengið, gæti höndlað allt Adderallið, gæti höndlað öll fíkniefnin, en ég gat það ekki. Þetta stytti tímann minn hér.“
Hinn 45 ára gamli tónlistarmaður sagði jafnframt að fyrir heilsufarsáfallið hefði hann drukkið „svona fjórar eða fimm flöskur á dag“ og tekið „10 Addys“.
„Ég var bara svona: „Það er ekkert að fara að koma fyrir mig. Ég er ósigrandi.“
Fyrr í vikunni greindi Ray J, sem átti í sambandi við Kim Kardashian snemma á 21. öld, frá því að hjarta hans væri „aðeins að slá á 25 prósentum“, þó hann segðist vona að hann myndi ná bata.
„Svo lengi sem ég held fókus og fylgi réttri braut verður allt í lagi,“ sagði hann í Instagram-myndbandi 25. janúar. „Heilsan mín er ekki í lagi, svo ég þakka öllum fyrir stuðninginn og bænirnar á meðan ég hef verið á sjúkrahúsinu.“
Ray J, sem á dótturina Melody, 7 ára, og soninn Epik, 5 ára, með fyrrverandi eiginkonu sinni Princess Love, sagðist afar þakklátur fyrir stuðninginn sem hann hefur fengið frá aðdáendum og fjölskyldu sinni, sérstaklega systur sinni Brandy og foreldrum sínum, Sonju Norwood og Willie Norwood.
„Mamma mín og pabbi eru að koma að sækja mig á morgun og fara með mig í eftirskoðun,“ sagði hann í Instagram-lifstreymi. „Takk mamma og pabbi, og takk Brandy fyrir að passa upp á mig.“
Hann bætti við: „Systir mín borgaði reikningana mína fyrir mig út árið. Það er galið.“

Komment